16.03.2010

Álið frá Straumsvík fer um allan heim

Álver er öðruvísi vinnustaður en margir eiga að venjast. Á hverjum degi, allt árið um kring, er rafgreint ál úr súráli. Það er síðan flutt í steypuskála og steypt í barra sem síðan eru sendir úr landi á skipum sem koma vikulega til hafnar í Straumsvík. Margir hafa eflaust velt fyrir sér spurningunni: “Hvað verður síðan um álið?”

Því er til að svara að þegar málmurinn siglir úr höfninni í Straumsvík á hann langa ferð fyrir höndum uns hann kemst í hendur þeirra sem að nota afurðina á endanum.

Í dag fer framleiðsla fyrirtækisins fyrst til Rotterdam í Hollandi og þaðan til viðskiptavina sem að eiga völsunarverksmiðjur í Þýskalandi og Sviss. Fyrstan viðskiptavina skal telja Hydro Norf og Novelis Norf sem deila saman stærstu völsunarverksmiðju í heimi, nærri Dusseldorf í Þýskalandi. Afkastageta hennar er um 1,5 milljónir tonna á ári og er ISAL einn af mörgum birgjum þeirra. Barrarnir eru fluttir á prömmum frá Rotterdam upp Rínarfljót og leggja að landi við Sturzelberg rétt hjá Norf. Norf starfrækir einnig eigin steypuskála þar sem ál er brætt upp og steypt í barra til eigin nota.

Alcan á Íslandi hf. sendir Novelis Norf barra af ýmsum gerðum: 1-seríu sem er notuð í álpappír, 8-seríu sem notuð er í umbúðir ýmiss konar, 5-seríu með lágu magnesíuminnihaldi sem er notuð í klæðningar á hús, sem og 5-seríu með háu magnesíuminnihaldi sem er notuð í bílaiðnaðinn og áldósir. Fyrirtækið hefur hafið tilraunaframleiðslu á því melmi sem notað er í dósalokin (það er annað melmi en í sjálfar dósirnar) og ljóst er að ekki þýðir að kasta til höndunum ef úr á að verða góð afurð.

Til Hydro Norf fara einnig 1- og 8- seríur en að auki höfum við sent Hydro tilraunaframleiðslu í 6-seríu sem er einkum notuð í bílaiðnaðinn. Þess má geta að stærstur hluti 1-seríunnar til Hydro fer í prentplötur.

Stærstur hluti framleiðslu Alcan á Íslandi hf. eða rúmlega helmingur fer til Singen í Suður-Þýskalandi og eru barrarnir fluttir þangað með lestum frá Rotterdam. Þar starfa tvö systurfyrirtæki okkar, Alcan Singen og Alcan Packaging Singen með framleiðslugetu upp á samtals 240 þúsund tonn á ári. Þar af er um helmingur steyptur í steypuskála Singen. Alcan Singen sér um alla heitvölsun fyrir bæði fyrirtækin en kaldvölsunin fer fram hjá hvoru fyrirtæki um sig. Alcan Singen er sérhæft í klæðningum á hús, speglum, álpappír o.fl. Alcan Packaging Singen er hinsvegar sérhæft í framleiðslu á umbúðum fyrir lyfjaiðnaðinn. Í lyfjaiðnaðinum eru gerðar gríðarlegar kröfur um gæði framleiðslunnar og því er afar mikilvægt að vanda sérstaklega til framleiðslunnar.

Síðasti viðskiptavinurinn í þessari upptalningu er Novelis Sierre í Sviss. Sú verksmiðja hefur framleiðslugetu upp á 130 þúsund tonn. Þangað fer málmurinn á prömmum upp Rínarfljót til Basel og þaðan á lest til Valais í suðurhluta Sviss. Ferðin tekur um 2 vikur frá því skipið lætur úr höfn í Straumsvík. Sierre hefur löngum keypt af okkur tvö melmi í 6- og 8-seríum sem notuð eru annars vegar í Audi bifreiðar og hins vegar í Alupex rör. Nú hafa bæst í hópinn melmi úr 1-seríu og annað úr 8-seríu, sem notuð eru í álpappír og umbúðir.

Allir þessir viðskiptavinir okkar eiga það sameiginlegt að leggja mikla áherslu á gæði í framleiðslu og vilja fá hráefni sem uppfyllir allar gæðakröfur og á réttum tíma. Markmið okkar er að vera fyrsta val okkar viðskiptavina og að vörumerkið Alcan á Íslandi hf. verði þekkt sem ákveðinn gæðastimpill. Við höfum þegar notið þess að vörumerkið er þekkt því nýr viðskiptavinur, AMAG, sem staðsettur er í Austurríki mun bætast í flóruna á þessu ári og sá aðili gerði kröfu um að fá ál frá Alcan á Íslandi hf.

Til að þessi markmið geti orðið að veruleika þurfum við ávallt að hafa í huga að gera betur í dag en í gær. Sá sem ekki þróast áfram og bætir sig á litla möguleika að lifa af í harðnandi samkeppni á markaði sem spannar allan heiminn.


« til baka

Fréttasafn

2024

febrúar, janúar

2023

október, janúar

2022

október, júní, janúar

2021

október, maí, febrúar, janúar

2020

maí, febrúar, janúar

2019

september, ágúst, júní, maí, febrúar, janúar

2018

júní, maí, febrúar, janúar

2017

desember, nóvember, september, júní, maí, janúar

2016

nóvember, júní, maí, febrúar, janúar

2015

desember, október, mars, febrúar, janúar

2014

desember, nóvember, október, maí, mars, febrúar, janúar

2013

júlí, maí, apríl, mars, janúar

2012

desember, nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2011

nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2010

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2009

desember, nóvember, október, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2008

desember, nóvember, október, september, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2007

desember, nóvember, október, september, apríl, mars, febrúar, janúar

2006

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2005

nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2004

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, apríl, mars, febrúar

2003

desember, október, júlí, júní, maí, apríl, febrúar, janúar

2002

desember, nóvember, október, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2001

desember, nóvember, október, september, janúar