17.02.2011

Álverin eiga umtalsverð viðskipti við yfir 500 íslensk fyrirtæki

Helstu tækifæri tengd áliðnaði liggja annars vegar í aukinni framleiðslu og hins vegar í "kreditlista" álfyrirtækjanna, sagði Rannveig Rist á Viðskiptaþingi í gær. Með "kreditlista" vísaði hún til þeirra fyrirtækja sem útvega álverunum vörur og þjónustu, en þau eru yfir 500 talsins. Ræða Rannveigar fer hér á eftir.

 

 

Kæru Viðskiptaþingsgestir.

Það er afskaplega vel til fundið að helga þetta Viðskiptaþing markvissri umfjöllun um tækifæri.

Það er góð nálgun, jákvæð og nauðsynleg.

Á því er enginn vafi, að stór hluti af helstu tækifærum okkar Íslendinga felst í því að við höldum áfram að nýta orkuauðlindir okkar.

Stórfelld raforkuframleiðsla hófst mjög seint hér á landi. Áður en Búrfellsvirkjun var reist nam raforkuvinnslan um það bil hálfri terawattstund á ári, sem dugar að vísu til almennra nota á um hundrað þúsund heimilum, en er þó ekki nema 1 – 2 prósent af auðlindinni.

Fram undir 1970 voru því 98 til 99 prósent hennar algerlega ónýtt.

En frá þessum tíma hefur framleiðslan aukist úr hálfri terwattstund á ári í sautján. Hún hefur því rúmlega þrítugfaldast. Forsendan fyrir þessu var stóriðjan, sem kaupir um þrjá fjórðu hluta rafmagnsins.

Ávinningurinn af þessu hefur verið margþættur.

Nær öruggt má telja að uppbygging stóriðju hafi stuðlað að lægra raforkuverði til almennings, með því að gera stórvirkjanir hagkvæmar, sem ella hefðu þurft að vera margar og litlar, eða þá að stærri virkjanir hefðu verið reistar án þess að vera fullnýttar fyrr en löngu síðar.

Annar ávinningur felst í þeirri miklu sérfræðiþekkingu sem orðin er til á Íslandi á sviði orkunýtingar og virkjanaframkvæmda, en í þeirri þekkingu felast heilmikil verðmæti sem nýtast okkur bæði innanlands og á erlendum vettvangi.

Í þriðja lagi hefur hin stórfellda raforkuvinnsla, sem stóriðjan gerði mögulega, opnað dyrnar fyrir aðra orkufreka starfsemi. Gott dæmi um  það er að þótt aflþynnuverksmiðja Becromal í Krossanesi noti næstum jafnmikið rafmagn og öll heimili landsins, þurfti ekki nýja virkjun til að útvega það. Það var þegar til staðar, sem umframgeta í kerfinu. – Sama gildir um fyrirhugaða kísilverksmiðju í Helguvík; samkvæmt fréttum kallar hún ekki á nýja virkjun, því rafmagnið sé til reiðu nú þegar.

Síðast en ekki síst er það að sjálfsögðu ávinningurinn af starfsemi kaupendanna. Þar eru álverin þrjú lang-fyrirferðarmest, en þau skiluðu í fyrra þjóðarbúinu um það bil 100 milljörðum króna í hreinar, nettó gjaldeyristekjur, með kaupum á rafmagni, launagreiðslum, opinberum gjöldum og aðkeyptri vöru og þjónustu.

Hvar stöndum við í dag gagnvart þessum auðlindum? Svarið er, að við vitum nokkurn veginn hvað þær eru miklar, en við vitum ekki hversu mikið af þeim við getum nýtt. Stærsti óvissuþátturinn er, hversu mikil umhverfisáhrif séu ásættanleg.

Ég nefndi áðan að við framleiðum í dag um 17 terawattstundir á ári.

Á vef Rammaáætlunar kemur fram að lauslega áætlað megi nýta 55 til 65 terawattstundir, með fyrirvara um að það er einmitt megintilgangur Rammaáætlunar að taka það mat til endurskoðunar.

Í drögum að Orkustefnu er sagt, að talið sé að auðlindin geti skilað – ekki 55 til 65 terawattstundum – heldur 30 til 50.

Samkvæmt þessum tveimur heimildum eigum við því eftir einhvers staðar á bilinu 13 til 48 terawattstundir.

Hvar sem mörkin liggja er ljóst, að það er eftir miklu að slægjast. Miðað við meðalverð Landsvirkjunar undanfarin ár – og núverandi gengi Bandaríkjadals – gæti sala á 13 – 48 terawattstundum skilað 40 – 150 milljarða króna tekjum á ári.

Til viðbótar því kæmu tekjur af starfsemi þeirra aðila sem myndu nýta orkuna.

Það er jákvætt fyrir Ísland ef aukinn áhugi er fyrir því meðal fjölbreyttra iðngreina að nýta tækifærin sem þarna liggja, með því að kaupa raforku í stórum stíl. En þótt sumir tali um „endalok stóriðjustefnu“ er að mínu mati algerlega augljóst, að það er langur vegur frá því að ný tækifæri í álframleiðslu útiloki slík verkefni, og ennþá síður að slík starfsemi komi í staðinn fyrir aukna álframleiðslu, ef við stefnum að því, sem við hljótum að gera, að nýta auðlindina að því marki sem ásættanlegt er út frá sjónarmiði umhverfis og annarra þátta.

Við skulum fara milliveginn í því mati sem nefnt er í drögum að orkustefnu, og miða við að auðlindin sé 40 terawattstundir, sem myndi þýða að eftir væru 23.

Hvernig nýtum við þær?

Segjum að hér rísi tíu kísilverksmiðjur, tíu aflþynnuverksmiðjur, og tíu gagnaver.

Þetta væri geysimikil uppbygging, ekki síst þegar haft er í huga að frá því að járnblendið á Grundartanga tók til starfa fyrir meira en 30 árum hefur aðeins einn nýr stórnotandi rafmagns hafið starfsemi, fyrir utan álver, en það aflþynnuverksmiðja Becromal.

En segjum að nú fari allt á fullan skrið og þessi stórfellda uppbygging verði að veruleika: tíu kísilverksmiðjur, tíu aflþynnuverksmiðjur, og tíu gagnaver.

Miðað við það sem fyrir liggur um orkunotkun þessarar starfsemi myndu þessir þrjátíu nýju orkukaupendur nota innan við 14 terawattstundir á ári, af þeim 23, sem við lögðum upp með að væru til.

Við gætum síðan að auki stefnt að því að tífalda starfsemi gróðurhúsa, en til þess þurfum við ekki nema rúmlega hálfa terawattstund.

Þess vegna segi ég hiklaust, að áhersla á fjölbreyttari hóp kaupenda felur alls ekki í sér að hverfa beri frá frekari uppbyggingu í áliðnaði.

En tækifærin í áliðnaði liggja ekki bara í aukinni framleiðslu.

Ef við líkjum álveri við kvikmyndaver, mætti með nokkurri einföldun segja að mikill áhugi á frekari úrvinnslu málmsins hér á landi, væri hliðstæð því að vilja framleiða alls kyns varning sem tengist viðkomandi kvikmynd, svo sem brúður, stuttermaboli, leikföng og svo framvegis.

En tækifærin liggja að mínu áliti framar í framleiðsluferlinu, þ.e.a.s. í „kreditlistanum“ sem birtist í lok myndarinnar. Oft veltir maður fyrir sér hversu ótrúlega margir koma að gerð einnar kvikmyndar, þegar kreditlistinn yfir allt þetta fólk gengur yfir skjáinn mínútum saman, og það þótt nöfn hvers og eins séu svo lítil að varla sé hægt að lesa þau.

Á sama hátt er „kreditlistinn“ fyrir álverin miklu lengri en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Álverin þrjú áttu á síðasta ári umtalsverð viðskipti við yfir 500 fyrirtæki á Íslandi. Hér eru aðeins talin þau fyrirtæki sem seldu álverunum vörur eða þjónustu fyrir hálfa milljón króna eða meira. Í sumum tilvikum er um að ræða tugi, hundruð, eða jafnvel þúsundir milljóna. Samtals námu viðskipti álveranna þriggja við þessi fyrirtæki 24 milljörðum króna í fyrra – fyrir utan raforkukaup.

Íslensk fyrirtæki hafa verið dugleg við að koma sér inn á „kreditlistann“ og taka sæti erlendra fyrirtækja sem voru þar fyrir. Tíminn leyfir ekki að ég nefni nema tvö dæmi.

Verkfræðistofan HRV var stofnuð með samruna þriggja verkfræðistofa, meðal annars til að geta tekið aukinn þátt í álverstengdum verkefnum, sem fyrirtækið hefur svo sannarlega gert. Í dag sinnir það verkefnum sem áður fyrr var sinnt af erlendum aðilum. Ég býst við að fáir geri sér grein fyrir því að margir tugir verkfræðinga og tæknifræðinga hjá HRV starfa eingöngu að þróunarverkefninu sem stendur yfir í Straumsvík.

Annað dæmi er Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar í Hafnarfirði, VHE. Það er ekki landsþekkt fyrirtæki, en þar starfa tæplega 300 manns. VHE hefur mikla reynslu og þekkingu á tækjasmíði, verkfræðilegri hönnun, hönnun stýrikerfa og tölvuforritun. Álverin eru langstærsti viðskiptavinurinn, og fyrirtækið hefur hannað og smíðað fjölda véla og tækja fyrir þau, ásamt því að sinna viðhaldi og almennri þjónustu við vélasamstæður.

Tækin sem VHE hefur hannað, þróað og framleitt fyrir álverin á Íslandi hafa reynst svo vel, að fyrirtækið hefur í dag selt þessa íslensku hönnun til álvera í 19 löndum, síðast þrjár mismunandi vélar til álvera í Katar, Óman og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Álverin hafa því sannarlega verið vettvangur fyrir nýsköpun og uppbyggingu nýrra fyrirtækja.

Ég ætla að skilja ykkur eftir með kreditlistann góða í kollinum – ásamt þeirri staðreynd að þeir 100 milljarðar í hreinum gjaldeyristekjum sem áliðnaðurinn skilur eftir sig á Íslandi hljóta að verða mun fleiri á komandi árum, ef við ætlum okkur að nýta þau tækifæri sem felast í orkuauðlind Íslendinga.


« til baka

Fréttasafn

2024

febrúar, janúar

2023

október, janúar

2022

október, júní, janúar

2021

október, maí, febrúar, janúar

2020

maí, febrúar, janúar

2019

september, ágúst, júní, maí, febrúar, janúar

2018

júní, maí, febrúar, janúar

2017

desember, nóvember, september, júní, maí, janúar

2016

nóvember, júní, maí, febrúar, janúar

2015

desember, október, mars, febrúar, janúar

2014

desember, nóvember, október, maí, mars, febrúar, janúar

2013

júlí, maí, apríl, mars, janúar

2012

desember, nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2011

nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2010

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2009

desember, nóvember, október, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2008

desember, nóvember, október, september, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2007

desember, nóvember, október, september, apríl, mars, febrúar, janúar

2006

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2005

nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2004

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, apríl, mars, febrúar

2003

desember, október, júlí, júní, maí, apríl, febrúar, janúar

2002

desember, nóvember, október, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2001

desember, nóvember, október, september, janúar