Saga álsins

Allt frá fornu fara hafa menn notað ýmsar efnablöndur með áli.  Íbúar SV-Asíu, þar sem nú er Írak, hafa löngum verið slyngir leirkerasmiðir og 5000 árum fyrir Krist gerðu þeir ker úr efnasambandi leirs og áls. Jafnframt notuðu Egyptar hinir fornu og Babýlóníumenn efnasambönd með áli við ýmis konar efna- og lyfjaframleiðslu.

Rómverski náttúrufræðingurinn og rithöfundurinn Plinius, sem fæddist 23 árum eftir Krist, minnist á álún í ritum sínum en álún nefnist salt sem inniheldur ál, kalíum og súlfathópa auk kristalsvatns. Álún var notað til að festa lit í vefnaði, jafnt í fornöld sem á miðöldum.

Á öndverðri 18. öld töldu kunnáttumenn að unnt væri að vinna sérstakan málm úr súráli. Súrál er steinefni sem finnst meðal annars í leir og er efnasamband áls og súrefnis. Torvelt reyndist þó að skilja álið frá súrefninu og tókst það ekki fyrr en snemma á 19. öld.

Breski efnafræðingurinn Humphry Davy komst að þeirri niðurstöðu árið 1807 að súrál væri efnasamband súrefnis og óþekkts málms sem hann nefndi "aluminium."  Davy gerði umfangsmiklar tilraunir til að kljúfa þetta efnasamband með rafgreiningu og notaði til þess rafmagn úr rafhlöðum. Ekki tókst honum að framleiða hreint ál en þó gat hann búið til álblöndu.

Danska eðlis-og efnafræðingnum Hans Christian Ørsted tókst árið 1825 fyrstum manna að framleiða hreint ál. Hann leysti álklóríð upp í blöndu kvikasilfurs og kalíummálms. Með því að eima kvikasilfrið burtu varð til moli af áli á stærð við baun.

Árangur Ørsteds varð þýska eðlisfræðingnum Frederich Wöhler hvatning til að halda áfram tilraunum og fann hann upp að ferð til að vinna ál úr álklóríði með kalíummálmi án kvikasilfurs árið 1827.

Frakkinn Sainte-Claire Deville endurbætti aðferð Wöhlers árið 1854 og notaði natríumístað kalíums. Deville framleiddi 200 tonn af áli á 35 árum og á þeim tíma tókst honum að koma framleiðslukostnaði niður í 1% af því sem hann hafði verið í upphafi.

Árið 1855 var ál sýnt á heimssýningunni í París og vakti það geysimikla athygli.

Frakkinn Paul Héroult og Bandaríkjamaðurinn Charles Martin Hall sóttu hvor um sig um einkaleyfi til að framleiða ál árið 1886. Báðir beittu þeirri að ferð að leysa súrálið upp í bráðnu krýólíti og vinna síðan ál úr blöndunni með rafgreiningu.

Um svipað leyti fann Þjóðverjinn Siemens upp rafalinn og Austurríkismanninum Karl Josef Bayer hugkvæmdist aðferð til að vinna súrál úr báxíti. Þar með var lagður grundvöllur að áliðnaði sem fólst í því að vinna ál úr súráli með rafgreiningu. Sigurför áls um heiminn var hafin.

Hall-Hérault aðferðin

Charles Martin Hall og Paul Hérault

Aðferðin sem í dag er notuð við framleiðslu á áli er kölluð Hall-Hérault aðferðin og er nefnd eftir upphafsmönnum hennar, Bandaríkjamanninum Charles Martin Hall og Frakkanum Paul Hérault.  Þeir uppgötvuðu hana samtímis, hvor í sinni heimsálfunni og án þess að vita hvor af öðrum.