06.02.2009

Einskis verðir milljarðar?

Efst í Þjórsárdal malar Búrfellsvirkjun gull fyrir eigendur sína, mörg þúsund milljónir á ári hverju í svo til hreinan hagnað, enda upphaflegar fjárfestingar í mannvirkinu að fullu afskrifaðar eftir 40 ára rekstur.

Í Straumsvík er orkan frá Búrfelli grundvöllur fyrir atvinnurekstri sem veitir yfir 500 manns atvinnu með beinum hætti og flytur yfir þúsund milljónir af erlendu fjármagni inn í íslenskt efnahagslíf í hverjum mánuði.*

Mörgum finnst eflaust skjóta skökku við að deilt sé um efnahagslegan ávinning landsmanna af slíkum rekstri, en sú umræða sprettur engu að síður upp öðru hverju.

Efast um ávinning
Indriði H. Þorláksson birti nýverið grein á vef sínum – sem talsvert var fjallað um í fjölmiðlum – um efnahagsleg áhrif álvera á Íslandi. Hann segir þar að efnahagslegur ávinningur landsmanna af slíkri starfsemi sé lítill. Mér virðist sem tvennt skekki einkum niðurstöðu hans; annars vegar vanmeti hann stórlega ávinninginn og hins vegar geri hann of lítið úr þýðingu þess ávinnings sem hann telur að sé þrátt fyrir allt fyrir hendi.

Mælistika Indriða, sem ekki skal véfengd hér, er að efnahagslegur ávinningur af álverum í erlendri eigu felist í eftirfarandi fimm þáttum: auðlindarentu, launagreiðslum álfyrirtækjanna, launagreiðslum og hagnaði innlendra aðila sem eiga viðskipti við álfyrirtækin, beinum sköttum álfyrirtækjanna, og loks svonefndum úthrifum sem eru ýmis hliðaráhrif sem erfitt er að mæla.

Niðurstaða Indriða er í sem stystu máli á þá leið að 1) Íslendingar haldi litlu sem engu eftir af auðlindarentunni vegna þess að orkuverð sé lágt, 2) launagreiðslur séu lítil sem engin viðbót við hagkerfið til lengri tíma litið enda hefðu hvort sem er skapast önnur störf ef álverin hefðu ekki verið reist, og 3) laun og hagnaður innlendra félaga sem eiga viðskipti við álfyrirtækin liggi ekki fyrir en þær fjárhæðir séu “ekki háar að tiltölu” við aðrar stærðir í þessu reikningsdæmi. Eftir standi þar af leiðandi að helsti efnahagslegi ávinningur Íslendinga af starfsemi álfyrirtækjanna séu beinir skattar sem á þau eru lagðir.

Hvað er "lítið"?
Gott og vel, hverjir eru þessir beinu skattar? Alcan á Íslandi hf., sem rekur álverið í Straumsvík, greiðir sama tekjuskatt til ríkisins og önnur fyrirtæki í landinu og nýtur engra sérkjara í því sambandi. Árið 2007 greiddi fyrirtækið 1,4 milljarða króna í tekjuskatt. Indriði telur þetta lítið, enda samsvari það "einungis um 0,1% af þjóðarframleiðslunni".

Látum vera að hann undanskilur fasteignagjöld með þeim rökum að þau séu að hluta til þjónustugjöld, en þau námu 230 milljónum þetta sama ár. Hugum heldur að því hvort 1,4 milljarðar sé lítið.

Fjárhæðin er um 3% af öllum tekjusköttum ríkisins af lögaðilum þetta ár. Hún er hærri en allur tekjuskattur af fiskveiðum, sem var rúmur milljarður. Hærri fjárhæð kom sem sagt frá þessu eina fyrirtæki. Hún er líka hærri en tekjuskattur allra fyrirtækja í hótel- og veitingahúsarekstri, hugbúnaðargerð og tengdri ráðgjöf, og lögfræðiþjónustu – samanlagt. Öll verslun í landinu greiddi 4,8 milljarða í tekjuskatt, þannig að álverið í Straumsvík greiddi meira en fjórðung af tekjuskatti allra verslunarfyrirtækja á Íslandi. – Hafa þau fyrirtæki kannski litla efnahagslega þýðingu? Vissulega veita þau fleira fólki atvinnu en álverið, en það felur væntanlega ekki í sér neinn "raunverulegan" ávinning fyrir landsmenn því störfin hefðu orðið til hvort sem er, svo notuð sé vinsæl röksemd.

Litið fram hjá milljörðum
Þetta var um vanmat á þýðingu þess "litla" ávinnings sem Indriði telur að sé sannarlega fyrir hendi. Skoðum næst ávinning sem hann lítur fram hjá.

Samkvæmt mælistiku Indriða eru laun og hagnaður innlendra aðila sem eiga viðskipti við álfyrirtækin einn af fimm þáttum sem segja til um efnahagslegan ávinning af starfsemi þeirra, og raunar einn af fjórum þáttum sem ekki er fram úr hófi flókið að mæla. Hann aflaði sér hins vegar ekki upplýsinga um aðkeypta þjónustu innanlands og því var honum "ekki unnt að meta laun og hagnað þeirra sem þá þjónustu seldu", eins og segir í greininni. Hann treystir sér hins vegar til að fullyrða að sú fjárhæð sé lág í samanburði við hina þættina. – Er það svo?

Álverið í Straumsvík keypti á liðnu ári vörur og þjónustu af rúmlega 800 innlendum aðilum fyrir 5,4 milljarða króna, fyrir utan orkukaup. Þetta skapar hundruð starfa. Til að setja þessi útgjöld í samhengi – og gefa um leið nokkra hugmynd um umfang þeirrar þjónustu sem álverið kaupir – má nefna að fyrir þessa fjárhæð mætti reka allt í senn Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, Þjóðminjasafnið, Menntaskólann í Reykjavík og Menntaskólann á Akureyri. Eða allt lögreglulið höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, með ríflegum afgangi fyrir nokkur sýslumannsembætti.

Aðrir segja "of stór"
Fleira mætti nefna hér, svo sem þann ávinning sem ætla má að landsmenn hafi haft af því að þurfa ekki að byggja upp raforkukerfið í litlum og óhagkvæmum skrefum, þá miklu verkfræðiþekkingu sem stóriðjan hefur lagt grundvöllinn að, nýsköpunarfyrirtæki sem sprottin eru úr jarðvegi álveranna (íslenskur hátæknibúnaður er seldur í álver um allan heim), og þá staðreynd að stóriðjan hefur jafnan greitt hærri laun en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði og felur þess vegna í sér "raunverulegan ávinning" í hagfræðilegum skilningi, hvað sem líður vangaveltum um að störfin hefðu orðið til "hvort sem er". – Í því sambandi má raunar spyrja hvaða atvinnugreinar standist slíka nálgun; hvers konar fyrirtækjarekstur feli í sér "raunverulegan ávinning" umfram þann sem hefði orðið til "hvort sem er"; hvort rekstur sem skilar meðalarðsemi og greiðir meðallaun feli ekki í sér neinn "raunverulegan ávinning" og hafi þar af leiðandi enga þýðingu; og hvers vegna engin önnur starfsemi en rekstur álvera virðist sífellt þurfa að verja tilvist sína á þessum forsendum.

Að lokum er síðan vert að vekja athygli á hve efasemdirnar um efnahagslegar forsendur stóriðju eru mótsagnakenndar. Annars vegar er því oft haldið fram að álframleiðsla sé orðin alltof umfangsmikil, verið sé að breyta landinu í "eitt risastórt álver", við séum að setja "öll eggin í sömu körfu" og orðin of háð sveiflum í álverði. Aðrir halda því síðan fram að umsvif álveranna á þjóðhagslegan mælikvarða séu varla merkjanleg; þau skipti okkur þess vegna litlu sem engu máli.

Hvorugt er rétt.

Ólafur Teitur Guðnason
framkvæmdastjóri samskiptasviðs Alcan á Íslandi hf.

* Um 40% af veltu Alcan á Íslandi hf. er kostnaður sem fellur til á Íslandi, eða tæplega 19 milljarðar króna árið 2008.


« til baka

Fréttasafn

2024

febrúar, janúar

2023

október, janúar

2022

október, júní, janúar

2021

október, maí, febrúar, janúar

2020

maí, febrúar, janúar

2019

september, ágúst, júní, maí, febrúar, janúar

2018

júní, maí, febrúar, janúar

2017

desember, nóvember, september, júní, maí, janúar

2016

nóvember, júní, maí, febrúar, janúar

2015

desember, október, mars, febrúar, janúar

2014

desember, nóvember, október, maí, mars, febrúar, janúar

2013

júlí, maí, apríl, mars, janúar

2012

desember, nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2011

nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2010

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2009

desember, nóvember, október, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2008

desember, nóvember, október, september, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2007

desember, nóvember, október, september, apríl, mars, febrúar, janúar

2006

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2005

nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2004

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, apríl, mars, febrúar

2003

desember, október, júlí, júní, maí, apríl, febrúar, janúar

2002

desember, nóvember, október, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2001

desember, nóvember, október, september, janúar