Hildur Knútsdóttir hlýtur Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2025
Hildur Knútsdóttir, rithöfundur, hlýtur Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2025 sem afhent voru við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum. Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, afhenti verðlaunin, sem eru áletraður gripur úr áli frá Rio Tinto á Íslandi og ein og hálf milljón króna í verðlaunafé.
Í umsögn dómnefndar kemur meðal annars fram:
„Hildur Knútsdóttir, bjartsýnisverðlaunahafi árið 2025, á að baki langan og fjölbreyttan feril. Á tímum þar sem lestur barna og ungmenna á í vök að verjast hefur verðlaunahafinn lagt umtalsvert af mörkum og fer iðulega ótroðnar slóðir í verkum sínum. Hún er fjölhæf, hugmyndarík og afkastamikil og skrifar bæði fyrir börn og fullorðna. Það er von okkar að Bjartsýnisverðlaunin verði hvatning til hennar um að halda áfram á sömu braut, að halda áfram að skrifa áhugaverðar, heillandi og frumlegar sögur fyrir okkar mikilvægustu lesendur.“
Hildur Knútsdóttir er bókmenntafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur einkum beint sjónum sínum að börnum og unglingum og gert lestur að sérstöku viðfangsefni m.a. í verkefninu Skáld í skólum á vegum Höfundamiðstöðvar. Í verkum sínum fer hún ótroðnar slóðir og er sögusvið verka hennar ýmist úr hversdagsleikanum eða úr veröld furðusagna. Auk þess að skrifa fyrir börn og ungmenni hefur Hildur skrifað leikrit, ljóð og nóvellur og tekið þátt í handritaskrifum fyrir sjónvarp.
Verk hennar hafa mörg hver verið þýdd á erlend tungumál og kvikmyndaréttur seldur af bókinni Myrkrið milli stjarnanna. Listi yfir verðlaun og viðurkenningar sýnir ótvírætt að verk viðkomandi hafa vakið verðskuldaða athygli. Bækurnar Kasia og Magdalena, Hrím, Skógurinn, Nornin, Doddi – Bók sannleikans! og Vetrarfrí hafa allar verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Jafnframt var Hrím tilnefnd til unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs. Þá hefur Hildur staðið framarlega í réttindabaráttu rithöfunda, ekki síst þeirra sem skrifa fyrir börn og unglinga. Hún hefur einnig látið umhverfismál sig miklu varða og var formaður stjórnar Loftlagssjóðs um árabil auk þess að vera verkefnisstjóri hjá Náttúruverndarsamtökum Íslands.
Bjartsýnisverðlaunin eru menningarverðlaun sem hafa verið afhent árlega frá árinu 1981. Rio Tinto á Íslandi, sem rekur álverið í Straumsvík, hefur verið bakhjarl verðlaunanna frá árinu 2000. Forseti Íslands hefur frá upphafi verið verndari verðlaunanna. Í hópi bjartsýnisverðlaunahafa eru margt þekktasta listafólk landsins.