01.06.2005
40 ára traust samstarf
Samningur um að Eimskip sjái um flutninga fyrir Alcan í Straumsvík næstu þrjú ár var undirritaður í dag. Alcan er einn stærsti útflytjandinn á vörum frá Íslandi og ráðgert er að á samningstímanum muni Eimskip flytja um milljón tonn af vörum fyrir Alcan.
Auk þess að flytja til Evrópu þær 200 vörutegundir af áli sem framleiddar eru í Straumsvík mun Eimskip annast flutninga á ýmsum aðföngum frá Evrópu, t.d. rafskautum og ýmsum rekstrarvörum. Flutningarnir eru hluti af vikulegum áætlunarsiglingum Eimskips en félagið hefur um áratugaskeið þróað nýjar og öruggar flutningatæknilegar lausnir í samvinnu við Alcan.
Samstarfs Alcan og Eimskip hefur verið langt og farsælt. Eimskip hefur annast flutninga fyrir álverið frá stofnun þess og því mun 40 ára samstarf þessara tveggja öflugu fyrirtækja verða að veruleika á samningstímanum. Sú staðreynd endurspeglar það traust sem ríkir milli félaganna, sem bæði hafa væntingar um frekari þróun á komandi árum í takt við þarfir hagsmunaaðila.
Fyrir hönd Alcan skrifuðu undir samninginn Rannveig Rist, forstjóri og Sigurður Þór Ásgeirsson, fjármálastjóri, en fyrir Eimskip Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Avion Group, og Baldur Guðnason, forstjóri.
« til bakaDeila