Heimsóknir

Við fáum fjölmargar heimsóknarbeiðnir frá fólki sem er áhugasamt um að heimsækja álverið.  Ef um er að ræða nemendahópa eða félagsskap af einhverju tagi reynum við að uppfylla óskirnar en vegna mikillar eftirspurnar frá ferðaskrifstofum, bæði innlendum og erlendum, getum við ekki ekki tekið á móti gestum sem ferðast um landið á þeirra vegum. 

Almenna reglan er sú, að heimsóknir eru takmarkaðar við hópa minni en 40 manns og almennan dagvinnutíma (milli kl. 8 og 16 virka daga).  Þeir sem vilja óska eftir heimsókn geta sent tölvupóst á netfangið samskiptasvid[hjá]isal.[punktur]is og við höfum samband þegar afstaða hefur verið tekin til beiðnarinnar. 

Við leggjum áherslu á að allir hópar sem leggja leið sína til okkar að kynni sér þær öryggisreglur sem hjá okkur gilda. Upplýsingar um þær er að finna hér til hliðar.

Öryggisreglur gesta

Mikilvægt er að allir gestir virði þær öryggisreglur sem gilda á svæðinu. Þær eiga að tryggja öryggi gestanna og annarra á svæðinu. Enginn fer inn á svæðið án leiðsögumanns sem ber ábyrgð á gestunum. Helstu öryggisreglur eru þessar:

  • Öllum gestum ber að gera grein fyrir erindi sínu hjá hliðverði.
  • Gestir skulu ávallt vera í fylgd leiðsögumanns frá fyrirtækinu.
  • Fólki með hjartagangráð er óheimilt að fara inn í kerskála, enda er þar sterkt segulsvið.
  • Óheimilt er að fara inn á svæðið með greiðslukort og armbandsúr vegna segulsviðs.
  • Þeim tilmælum er beint til óléttra kvenna að fara ekki inn í kerskála, vegna segulsviðs sem þar er.
  • Myndatökur eru ekki leyfðar á svæðinu, nema með sérstöku leyfi.
  • Reykingar eru ekki heimilar á meðan heimsókn stendur.
  • Við útvegum gestum okkar allar persónuhlífar - hjálma, gleraugu og yfirhafnir - en óskum eftir að þeir mæti í lokuðum leðurskóm og síðbuxum.