Málmurinn
Ál er þriðja algengasta frumefni jarðskorpunnar, næst á eftir súrefni og kísli, og nemur það um 8%af þyngd hennar. Ál finnst í jarðvegi, flestum bergtegundum og öllum leirtegundum. Íslensk fjöll, þar með talinn Keilir, Hekla og Esjan, eru því að hluta til úr áli. Ál er í matvælum, mannslíkamanum, gróðri, vatni og meira að segja rykögnum í andrúmsloftinu. Af öllum málmum á jörðinni er mest til af áli, sem er t.d. 800 sinnum algengara en kopar, sem menn hafa þekkt og notað í mörg þúsund ár.
Þrátt fyrir það finnst hreint ál hvergi í náttúrunni. Það er ávallt í sambandi við önnur efni og aðeins er hægt að vinna ál á hagkvæman hátt úr einni bergtegund, báxíti, sem finnst aðallega á breiðu belti við miðbaug jarðar. Úr báxíti er súrál unnið en það er efnasamband súrefnis og áls og líkist það fínum, hvítum sandi. Súrál er svo meginhráefnið í álframleiðslu, en með rafstraumi er hægt að kljúfa það í frumefni sín.
Vissir þú að ...
- Flestir nota ál oft á dag, oft án þess að taka eftir því. Það er m.a. notað í farsíma, tölvur, spegla, sprittkerti, reiðhjól, potta og pönnur.
- Í Evrópu eru árlega seldar yfir 40 milljarðar eininga af drykkjum í áldósum.
- Á Íslandi er yfir 90% af notuðum áldósum skilað til Endurvinnslunnar. Dósirnar eru svo sendar til Englands þar sem álið er endurunnið.
- Hægt er að endurvinna álið aftur og aftur án þess að það tapi eiginleikum sínum.