12.09.2006
Þrír birgjar verðlaunaðir
Hinn árlegi birgjadagur Alcan var haldinn í vikunni, en þetta var í þriðja sinn sem fyrirtækið býður helstu innlendu birgjunum til fundar til að ræða áherslurnar í rekstrinum og þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Þessi árlegi fundur er búinn að festa sig í sessi meðal okkar birgja, en í þetta sinn voru afhentar í fyrsta sinn viðurkenningar til valinna birgja fyrir góðan árangur.
Ístak hlaut viðurkenningu fyrir áherslur sínar í öryggismálum, en fyrirtækið þótti skara fram úr birgjahópnum á þessu sviði. Istak hefur unnið að stækkun flæðigrifjunnar undanfarið.
JRJ hlaut viðurkenningu fyrir virðissköpun en fyrirtækið hefur unnið lengi fyrir Alcan við hin ýmsu verkefni. Á þessu ári tók fyrirtækið við nýjum verkefnum á svæðinu og við breytinguna lækkaði kostnaður okkar umtalsvert frá fyrra fyrirkomulagi.
Stímir hlaut viðurkenningu fyrir stöðugar umbætur en fyrirtækið hefur margsinnis komið með góðar hugmyndir sem snúa að umbótum innan fyrirtækisins sem skilað hafa góðum árangri.
Smelltu hér til að stækka myndina frá verðlaunaafhendingunni. Á myndinni eru f.v. Jean-Philippe Puig forstjóri áldeilar Alcan í Evrópu, Ingi Rútsson frá Stími, Rannveig Rist forstjóri Alcan á Íslandi, Jón Rúnar Jónsson JRJ verktökum, Loftur Sigurjónsson Ístaki og Wolfgang Stiller, forstjóri rekstarhluta álvera Alcan í Evrópu.
Almenn ánægja hefur verið meðal birgja með þennan sið, að bjóða helstu birgjum til sameiginlegs fundar einu sinni á ári. Alcan er eina fyrirtækið hér á landi sem efnir til birgjadags af þessu tagi, en mörg önnur horfa til okkar sem fyrirmyndar á þessu sviði.« til bakaDeila