27.12.2006
Björgvin á hvert heimili í Firðinum
Eins og fólki er vonandi enn í fersku minni þá bauð Alcan á Íslandi starfsmönnum sínum og Hafnfirðingum öllum að þiggja miða á tónleika Björgvins Halldórssonar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands fyrr á árinu í tilefni af 40 ára afmæli álversins. Húsfyllir varð á svipstundu og komust færri að en vildu. Í kjölfar tónleikanna fæddist því sú hugmynd að færa starfsmönnum og bæjarbúum öllum að gjöf mynd- og geisladisk með upptöku frá tónleikunum. Hugmyndinni hefur nú verið hrundið í framkvæmd og með gjöfinni færum við samstarfsfólki okkar fyrr og síðar bestu þakkir fyrir ánægjulega sambúð í fjörutíu ár.
Í bréfi sem fylgir disknum greinum við einnig frá þeirri ætlun okkar að kynna á næstu misserum fyrir bæjarbúum starfsemi okkar með margvíslegum hætti. Þannig viljum við gefa fólki tækifæri til að mynda sér skoðun á fyrirhugaðri stækkun álversins, sem væntanlega verður kosið um með einhverjum hætti á næstunni.
Við gerum okkur grein fyrir því, að í aðdraganda kosninganna munu ólík sjónarmið takast á. Við vonumst til að þau skoðanaskipti verði málefnaleg og heilbrigður grunnur að vel ígrundaðri afstöðu fólks til málsins.
« til bakaDeila