15.04.2008
Nesskip og Wilson Euro Carriers taka við sjóflutningum fyrir Alcan á Íslandi
Alcan á Íslandi hf., sem rekur álverið í Straumsvík, hefur undirritað samning við Nesskip hf. og móðurfélag þess, Wilson Euro Carriers, um sjóflutninga fyrir Alcan á Íslandi. Samningurinn gildir frá 1. júlí 2008 til 30. júní 2011 og er með ákveðnum framlengingarheimildum eftir þann tíma. Tvö 4.500 tonna systurskip frá Wilson verða eingöngu í flutningum fyrir Alcan á Íslandi og munu sigla milli Straumsvíkur og Rotterdam. Hvort skip verður í hálfan mánuð í ferð. Áætlað er að skipin verði komin til vinnu snemma á mánudögum á báðum stöðum og láti ekki seinna úr höfn en um hádegi á miðvikudögum. Skipin eru svokölluð "Bulk" skip. þ.e. lausafarmsskip en geta þó tekið allt að 200 gáma í ferð í lest og á þilfari. Eimskip hefur séð um flutninga fyrir álverið í Straumsvík og rennur sá samningur út í byrjun júlí.
Sigurður Þór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri fjármála og flutninga hjá Alcan á Íslandi hf. segir umtalsverðan ávinning af nýjum samningi: „Við fórum í útboð með skipaflutningana í desember og Nesskip og Wilson Euro Carriers áttu tvímælalaust besta tilboðið. Þessi skip verða eingöngu í okkar þjónustu þannig að tímaáætlanir munu standast betur og afhendingaröryggi mun aukast. Þannig getum við gert ákveðnar breytingar í hafnarrekstrinum í Straumsvík og Rotterdam sem mun spara umtalsverða fjármuni og verða til hagsbóta fyrir starfsfólk.“
Nesskip er að stærstum hluta í eigu Wilson Euro Carriers í Noregi sem rekur 117 skip. Að sögn Garðars Jóhannssonar framkvæmdastjóra Nesskipa er Wilson með 16 ný flutningaskip í smíðum sem koma munu inn í reksturinn á árunum 2009-2012. Nesskip og Wilson hafa langa reynslu af flutningum fyrir stóriðju og álver. Wilson hefur um langt árabil flutt hráefni og afurðir fyrir Söral, Hydro og Elkem í Noregi og Nesskip hefur m.a. annast flutninga fyrir Járnblendifélagið á Grundartanga frá stofnun þess.
Mynd frá undirritun samningsins í Straumsvík 10. apríl 2008. Frá vinstri: Guðmundur Ágústsson, framkvæmdastjóri tækniþjónustu- og umhverfismála og Sigurður Þór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri fjármála hjá Alcan á Íslandi hf., Garðar Jóhannsson framkvæmdastjóri Nesskipa og Jostein Bjorgo frá Wilson.
« til bakaDeila