28.04.2008
Samstarfssamningur undirritaður
Samstarfssamningur vegna átaksins Hjólað í vinnuna 2008 var á föstudaginn undirritaður af Ólafi Rafnssyni, forseta ÍSÍ og Rannveigu Rist, forstjóra Alcan á Íslandi, en Alcan er aðalstyrktaraðili keppninnar í ár. Keppnin fer fram 7. til 23. maí næstkomandi, en þetta er í sjötta sinn sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir keppninni.
Landsmenn hafa tekið þessu hvatningar- og átaksverkefni afar vel og hefur þátttakendum fjölgað um 1.275 prósent frá því keppnin var haldin fyrst árið 2003. Þá voru keppendur 533 talsins en 7.333 í fyrra. Keppnisliðum hefur fjölgað úr 71 í 913, eða um 1.186 prósent.
Árið 2007 hjóluðu þátttakendur 417.106 kílómetra, sem jafngildir 311 hringjum í kringum landið og hálfum hring betur, eða vel á ellefta hring í kringum jörðina. Með framtaki sínu má áætla að þátttakendur hafi sparað tæplega 46 þúsund lítra af bensíni, rúmlega 80 tonn af koltvísýringsútblæstri og brennt tólf milljón hitaeiningum.
Átakið Hjólað í vinnuna hefst 7. maí og lýkur 23. maí.
« til bakaDeila