18.11.2008
NVDA Verðlaunin veitt
Verkefni frá ISAL var eitt þeirra verkefna sem hlaut hin virtu NVDA verðlaun í ár. Verðlaunin voru afhent í San Francisco í Bandaríkjunum þann 3. október síðastliðinn. Verkefnið snérist um að útrýma notkun klórs í steypuskálanum en steypuskáli ISAL er sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum sem nær þessum áfanga og fyrir það voru NVDA verðlaunin veitt. Guðmundur R. Björnsson sendi inn tilnefningu til verðlaunanna fyrir verkefnið. Einar Smárason, leiðtogi málmfræði og framleiðslueftirlits hlaut viðurkenninguna fyrir framúrskarandi árangur starfsmanns fyrirtækisins. Að verkefninu stóðu auk Einars, þeir Claude Dupuis, Sébastian Leboeuf og Serge Munger auk fjölmargra sem komu að verkefninu hjá ÍSAL og Í Kanada.Verðlaunin staðfesta þá frábæru frammistöðu og framsækni starfsmanna ISAL sem skilar árangri á borð við þennan. Verkefnið markar einnig tímamót varðandi stefnumörkun hjá fyrirtækinu því nú er stefnt að því að allir steypuskálar innan samstæðunnar verði lausir við klór fyrir árið 2010.
Til verðlaunanna var stofnað árið 2002 að frumkvæði Alcan. Markmið þeirra er að heiðra þá starfsmenn eða starfsmannateymi sem hafa verið öðrum til fyrirmyndar með einstöku framlagi sínu til Rio Tinto Alcan og þeirra samfélaga sem því tilheyra.
NVDA verðlaunin eru nefnd eftir Nathanael Vining Davis (1915-2005) sem var forstjóri og framkvæmdastjóri Alcan 1947-1979 og stjórnarformaður frá 1972 til ársins 1986.
Undir hans forystu þróaðist Alcan yfir í það að verða eitt af fyrstu fjölþjóðlegu fyrirtækjum heimsins. Hann var mikill hugsjónamaður og ötull talsmaður þess að fela aukna ábyrgð í hendur starfsmanna. Hann gerði sér góða grein fyrir því að velgengni fyrirtækisins byggðist – og byggist enn – á framlagi og afrekum starfsfólksins.
« til bakaDeila