08.01.2010
Víkingur Heiðar Ólafsson hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin
Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2009. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Iðnó þriðjudaginn 5. janúar sl. og afhenti Víkingi Heiðari áletraðan verðlaunagrip úr áli og verðlaunafé að upphæð 1 milljón króna.
Dómnefnd verðlaunanna skipa frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, sem er formaður nefndarinnar, Rannveig Rist, Sveinn Einarsson og Örnólfur Thorsson.
Fá menningarverðlaun hér á landi eiga sér lengri sögu en Íslensku bjartsýnisverðlaunin. Þau voru fyrst afhent árið 1981 og voru þá kennd við upphafsmann sinn, danska athafnamanninn Peter Bröste. Þegar hann dró sig í hlé skoraði hann á íslensk fyrirtæki að halda verðlaununum við og hefur Alcan á Íslandi hf. verið bakhjarl þeirra frá árinu 2000. Forseti Íslands hefur frá upphafi verið verndari þeirra.
Víkingur Heiðar Ólafsson lauk mastersprófi frá Juilliard listaháskólanum í New York vorið 2008. Í Juilliard hlaut hann árið 2006 Carl Roeder-verðlaunin fyrir píanóleik og á lokaári sínu sigraði hann í einleikarakeppni á vegum skólans sem veitti honum rétt til að flytja píanókonsert með hljómsveit skólans í tónleikasal New York Fílharmóníunnar. Hann hlaut fyrstu tilsögn á píanó fjögurra ára að aldri hjá móður sinni, Svönu Víkingsdóttur, en stundaði síðar nám við Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Tónlistarskólann í Reykjavík, þaðan sem hann lauk einleikaraprófi árið 2001. Hann hefur hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin tvisvar sinnum: árið 2004 í flokknum „bjartasta vonin“ og árið 2006 í flokknum „flytjandi ársins“, en hann er yngstur allra sem hlotið hefur þau verðlaun. Hann hefur komið fram á fjölda tónleika víða um heim, meðal annars í Bandaríkjunum, Kína, Kanada, Lettlandi, Rúmeníu, Ítalíu, Belgíu, Spáni og Frakklandi, auk fjölda tónleika á Íslandi.
« til bakaDeila