16.06.2010
Rio Tinto Alcan og Landsvirkjun semja um orkukaup til ársins 2036
Rio Tinto Alcan og Landsvirkjun hafa lokið samningum um endurnýjun á raforkusamningi Alcan á Íslandi hf., sem rekur álverið í Straumsvík.
Samningurinn er til ársins 2036 en núgildandi samningur hefði getað gilt til 2024 næðist um það samkomulag í síðasta lagi 2014.
Í samningnum er einnig kveðið á um kaup á 75MW af viðbótarorku, sem er ein forsenda þess að unnt sé að ráðast í fyrirhugaða straumhækkun í álverinu. Með henni stendur til að auka framleiðslugetuna um u.þ.b. 40 þúsund tonn eða í tæplega 230 þúsund tonn á ári.
„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir álverið. Bæði framlengingin á núverandi orkukaupum og ákvæðin um viðbótarorku renna sterkari stoðum undir framtíð okkar,“ segir Rannveig Rist forstjóri Alcan á Íslandi. Álverið í Straumsvík veitir um 450 starfsmönnum atvinnu, auk verktaka, og eyðir nálægt hálfum öðrum milljarði króna af erlendum gjaldeyri á Íslandi í hverjum mánuði.
Samningurinn er háður samþykki stjórna beggja fyrirtækja auk fyrirvara sem meðal annars lúta að því að ákveðinni óvissu verði eytt um skatta á stóriðju. Gert er ráð fyrir að fyrirvörunum verði fullnægt eigi síðar en 31. ágúst næstkomandi.
Niðurstaða samningaviðræðnanna er til marks um eindreginn vilja Rio Tinto Alcan til að styrkja og efla starfsemi sína á Íslandi. Jafnframt endurspeglar hún afar farsælt samstarf álversins í Straumsvík og Landsvirkjunar sem staðið hefur í yfir 40 ár.
Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar og Rannveig Rist forstjóri Alcan á Íslandi hf. við undirritun raforkusamningsins
« til bakaDeila