23.09.2010

Rio Tinto Alcan fjárfestir fyrir 41 milljarð í álverinu í Straumsvík - uppfærir tæknibúnað og eykur framleiðslugetu

Rio Tinto Alcan mun verja 347 milljónum dollara, eða sem nemur 40,6 milljörðum íslenskra króna, til að uppfæra búnað og auka framleiðslugetu álversins í Straumsvík í kjölfar þess að endanlega hefur verið gengið frá nýjum raforkusamningi við Landsvirkjun sem samkomulag tókst um fyrr á þessu ári.

Nýi raforkusamningurinn tekur gildi 1. október næstkomandi og er til ársins 2036. Hann gerir Rio Tinto Alcan kleift að hækka strauminn í álverinu þar sem í honum er kveðið á um viðbótarorku sem nemur 75MW auk áframhaldandi afhendingar á þeirri orku sem álverið kaupir í dag. Straumhækkunin er hluti af fjárfestingarverkefni sem miðar að því að auka framleiðslu álversins um 20% í tæplega 230 þúsund tonn á ári, ásamt því að auka afkastagetu lofthreinsibúnaðar og auka rekstraröryggi með uppfærslu á rafbúnaði.

„Við höfum átt árangursríkt samstarf við Íslendinga í meira en 40 ár og byggjum nú á þeirri góðu reynslu. Góð samskipti við helstu hagsmunaaðila á Íslandi áttu þátt í að gera þessa tugmilljarða fjárfestingu mögulega og treysta þannig grundvöll fyrirtækisins til lengri tíma. Álverið veitir 450 manns atvinnu með beinum hætti og eyðir í hverjum mánuði 1,5 milljörðum króna á Íslandi. Þetta eru því góð tíðindi bæði fyrir Rio Tinto Alcan og fyrir Ísland,“ segir Jean-Philippe Puig, forstjóri Rio Tinto Alcan í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku.

“Straumhækkunarverkefni ISAL er í takt við þá stefnu Rio Tinto Alcan að þróa áfram þær rekstrareiningar sem þykja skara fram úr. ISAL notar hreina orku, hefur lágmarkað losun gróðurhúsalofttegunda, náð framúrskarandi árangri í heilbrigðis-, öryggis-, og umhverfismálum og reynst áreiðanlegur framleiðandi á hágæðavörum fyrir viðskiptavini okkar,” segir Jacynthe Côté, forstjóri Rio Tinto Alcan.

 “Við erum stolt af því að fjárfesta í framtíð ISAL. Straumhækkunarverkefnið kemur til með að skapa hundruð starfa meðan á framkvæmdum stendur, sem verða kærkomin viðbót fyrir íslenskt efnahagslíf. Verkefnið styrkir jafnframt stöðu okkar sem einn af stærstu útflytjendum á Íslandi, sem kemur jafnt ISAL sem og íslensku efnahagslífi til góða,” segir Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi hf.

Gert er ráð fyrir að stigvaxandi framleiðsluaukning hefjist í apríl árið 2012 og að fullum afköstum verði náð í júlí 2014.

 

- Ítarefni

Lykilstaðreyndir um verkefnið:

  • Heildarfjárfesting: 347 milljónir dollara eða 40,6 milljarðar króna
  • Ársverk sem framkvæmdin kallar á: 470
  • Áætlað hámark framkvæmda: nóvember 2011 með yfir 360 manns við störf við verkefnið
  • Áætluð lok framkvæmda: desember 2012
  • Framleiðsluaukning: 20% eða úr 189 þúsund tonnum í 228 þúsund tonn
  • Einnig aukið rekstraröryggi (viðamiklar endurbætur á rafbúnaði) og aukin afköst lofthreinsibúnaðar
  • Nýr raforkusamningur við Landsvirkjun, sem gildir til ársins 2036, gerir verkefnið mögulegt
  • Mikilvægt fyrir framtíð álversins, sem hefur verið öflugur atvinnuveitandi í yfir 40 ár og eyðir um 1,5 milljörðum króna af gjaldeyristekjum sínum á Íslandi í hverjum mánuði

Rio Tinto Alcan hefur ákveðið að ráðast í svokallað straumhækkunarverkefni í álverinu í Straumsvík (ISAL). Í því felst uppfærsla á straumleiðurum og öðrum búnaði álversins sem gerir kleift að auka framleiðsluna í tæplega 230 þúsund tonn á ári, eða um 20%, með því að auka við rafstrauminn í kerunum þar sem álið er framleitt.

Undirbúningur verkefnisins hefur staðið lengi en ekki varð endanlega ljóst hvort af því gæti orðið fyrr en í þessari viku, þegar Alcan á Íslandi og Landsvirkjun staðfestu að engir fyrirvarar stæðu í vegi fyrir því að orkusamningur fyrirtækjanna frá því í sumar tæki gildi.

Núgildandi orkusamningur álversins hefði að óbreyttu runnið út árið 2014, með möguleika á 10 ára framlengingu ef semdist um verð. Nýr orkusamningur er hins vegar til ársins 2036 og öðlast gildi 1. október næstkomandi.

Framkvæmdir við fyrsta hluta þessa verkefnis, sem lýtur einkum að því að auka rekstraröryggi álversins með uppfærslu á rafbúnaði í aðveitustöðinni austan við kerskálana, hófust fyrr á þessu ári. Sá hluti var enda ekki háður því að samningar tækjust um aukin raforkukaup. Þessi fyrsti hluti verkefnisins miðar að því að tryggja að bilun líkt og sú er varð árið 2006, sem olli langvarandi rafmagnsleysi í einkum kerskála, valdi ekki eins miklu tjóni og þá. Umfang þessa hluta er innan við þriðjungur af heildarverkefninu.

Ekki var unnt að ráðast í meginhluta verkefnisins – sjálfa straumhækkunina og undirbúning hennar – fyrr en ljóst varð að samningar tækjust um orkukaup. Nú liggur það fyrir og munu framkvæmdir hefjast á næstu vikum.

Um er að ræða breytingar á straumleiðurum í tveimur af þremur kerskálum, sem er mjög viðamikil og tæknilega flókin framkvæmd.

Heildarfjárfestingin nemur 347 milljónum dollara eða 40,6 milljörðum króna á núverandi gengi. Þriðjungur kostnaðarins fellur til á Íslandi en kaup á búnaði erlendis frá vega einnig þungt. Alls kallar verkefnið á 470 ársverk á framkvæmdatímanum og er þar einkum um að ræða iðnaðarmenn, svo sem rafiðnaðarmenn, járniðnaðarmenn og smiði, en einnig verkfræðinga, tæknifræðinga og verkafólk.

Gert er ráð fyrir að byrjað verði að hækka strauminn á vormánuðum 2012. Hann verður síðan hækkaður jafnt og þétt yfir 25 mánaða tímabil, eftir því sem vinnunni við að uppfæra straumleiðara og annan búnað vindur fram. Fullum afköstum ætti samkvæmt því að verða náð í júní 2014.

Framleiðsluaukningin næst fram með því að auka afkastagetu núverandi kerskála og veldur mjög lítilli breytingu á ásýnd álversins. Aðveitustöðin austan við kerskálana verður stækkuð lítið eitt í tvær áttir og nokkrir strompar verða hækkaðir til jafns við hæsta núverandi stromp, en allir verða þeir eftir sem áður töluvert lægri en sílóin sem nú eru á milli kerskálanna. Breytingin verður því minniháttar.

Til að mæta framleiðsluaukningunni verða tvær elstu þurrhreinsistöðvarnar, sem hreinsa afsogið frá kerum, stækkaðar og afköst þeirra aukin. Flúorlosun á hvert framleitt tonn mun því minnka um u.þ.b. 10%. Mælingar í loftgæðastöð í nágrenni álversins, nánar tiltekið á Hvaleyrarholti, sýna að flúor í lofti er vart mælanlegur og SO2 gildi eru lág. Hvorki sólarhringsmeðaltal né klukkustundarmeðaltal SO2 fór  nokkru sinni yfir heilsuverndarmörk árið 2009 og ársmeðaltalið er um 1/30 af umhverfismörkum. Einnig mun draga nokkuð úr hávaða frá álverinu með nýjum og hljóðlátara blásurum við þurrhreinsistöðvarnar.

ISAL hefur sýnt mikinn metnað í öryggis-, heilbrigðis- og umhverfismálum, sem birtist meðal annars í því að fyrirtækið var önnur tveggja starfsstöðva Rio Tinto í heiminum sem hlutu öryggisviðurkenningu forstjóra Rio Tinto fyrr á þessu ári, og losaði árið 2008 minna af flúorkolefnum (sem eru sterkar gróðurhúsalofttegundir) en nokkurt annað álver í heiminum samkvæmt árlegri könnun Alþjóðasamtaka álframleiðenda.

Álverið hefur jafnframt verið öflugur vinnuveitandi í yfir 40 ár. Starfsmenn ISAL eru um 450 en auk þess vinnur fjöldi verktaka að meira eða minna leyti fyrir álverið, að ótöldum afleiddum störfum. Umfangi afleiddrar starfsemi er best lýst með þeirri staðreynd að árlega kaupir ISAL vörur og þjónustu af yfir 800 innlendum aðilum fyrir um 5 milljarða króna. Alls verða um 40% af veltu fyrirtækisins eftir á Íslandi eða um 1,5 milljarðar króna á mánuði.

Fyrirtækið leggur einnig ríka áherslu á að starfa í sátt við samfélagið. Upplýsingagjöf gegnir þar lykilhlutverki og birti fyrirtækið m.a. á þessu ári ítarlega sjálfbærniskýrslu í fyrsta sinn, en áður hafði verið gefið út grænt bókhald um árabil.

Straumhækkunarverkefnið og nýr raforkusamningur við Landsvirkjun styrkja álverið og treysta starfsemi þess til framtíðar, jafnframt því sem framkvæmdirnar munu hafa veruleg jákvæð áhrif fyrir íslenskt efnahagslíf.


« til baka

Fréttasafn

2024

apríl, febrúar, janúar

2023

október, janúar

2022

október, júní, janúar

2021

október, maí, febrúar, janúar

2020

maí, febrúar, janúar

2019

september, ágúst, júní, maí, febrúar, janúar

2018

júní, maí, febrúar, janúar

2017

desember, nóvember, september, júní, maí, janúar

2016

nóvember, júní, maí, febrúar, janúar

2015

desember, október, mars, febrúar, janúar

2014

desember, nóvember, október, maí, mars, febrúar, janúar

2013

júlí, maí, apríl, mars, janúar

2012

desember, nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2011

nóvember, september, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2010

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2009

desember, nóvember, október, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2008

desember, nóvember, október, september, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2007

desember, nóvember, október, september, apríl, mars, febrúar, janúar

2006

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2005

nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, maí, apríl, mars, febrúar, janúar

2004

desember, nóvember, október, september, ágúst, júlí, júní, apríl, mars, febrúar

2003

desember, október, júlí, júní, maí, apríl, febrúar, janúar

2002

desember, nóvember, október, ágúst, júlí, júní, maí, mars, febrúar, janúar

2001

desember, nóvember, október, september, janúar