08.06.2011
Barna- og unglingastarf íþróttafélaga í Hafnarfirði styrkt um 9 milljónir króna
Ellefu aðildarfélög Íþróttabandalags Hafnarfjarðar hlutu í gær samtals 9 milljóna króna styrki til eflingar barna- og unglingastarfs félaganna. Að styrkjunum standa Hafnarfjarðarbær og Rio Tinto Alcan á Íslandi og voru þeir afhentir í höfuðstöðvum álversins í Straumsvík.
Um er að ræða fyrri afhendingu ársins á árlegum 15 milljóna króna styrk samkvæmt samstarfssamningi ÍBH, Rio Tinto Alcan og Hafnarfjarðarbæjar. Greiðir Rio Tinto Alcan 9 milljónir á ári og Hafnarfjarðarbær 6 milljónir.
Samstarf þessara þriggja aðila hefur staðið frá árinu 2001.
Fjárhæð vorúthlutunar skiptist á félögin eftir fjölda iðkenda 16 ára og yngri en við desemberúthlutun er útdeilt með hliðsjón af námskrám félaganna og menntunarstigi þjálfara.
Eftirfarandi félög hlutu styrk í gær:
Knattspyrnufélagið Haukar 2.737.023,-
Fimleikafélag Hafnarfjarðar (FH) 2.188.456,-
Fimleikafélagið Björk 2.014.000,-
Sundfélag Hafnarfjarðar (SH) 604.781,-
Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar (DÍH) 362.481,-
Golfklúbburinn Keilir 354.728,-
Badmintonfélag Hafnarfjarðar (BH) 323.713,-
Siglingaklúbburinn Þytur 222.916,-
Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar (HFH) 96.920,-
Hestamannafélagið Sörli 58.152,-
Íþróttafélagið Fjörður 36.830,-
Rannveig Rist, Guðmundur Rúnar Árnason bæjarstjóri og Hrafnkell Marinósson, formaður ÍBH, lögðu öll áherslu á mikilvægi þessa samstarfs fyrir íþróttalíf bæjarins, og þann margvíslega samfélagslega ávinning sem öflugt íþróttastarf hefur í för með sér. Hafði Rannveig jafnframt á orði að gullsöfnun hafnfirskra íþróttamanna væri orðin slík að móðurfélag álversins, Rio Tinto, væri farið að muna talsvert um hana, en gull er ein af afurðum fyrirtækisins.
Á myndinni eru Rannveig forstjóri álversins, Guðmundur Rúnar bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Hrafnkell ásamt fulltrúum aðildarfélaga ÍBH við afhendingu styrkjanna í Straumsvík í gær.
« til bakaDeila