19.12.2012
Helga Arnalds hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin
Helga Arnalds, brúðuleikari og myndlistarkona, hlaut á föstudaginn var Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2012. Forseti Íslands afhenti verðlaunin í Iðnó; áletraðan grip úr áli og eina milljón króna.
Helga er listrænn stjórnandi Leikhússins 10 fingur sem hún stofnaði árið 1994. Sýning hennar “Litla skrímslið systir mín” hlaut Grímuna 2012 sem besta barnasýning ársins og árið 2007 hlaut verkið “Gott kvöld”, sem hún setti upp í samstarfi við Þjóðleikhúsið, sömu verðlaun. Hún hefur sett upp fjölda sýninga og einnig hannað leikmyndir og gert brúður fyrir önnur leikhús og sjónvarp.
Helga hlaut menntun sína í brúðuleikhúsi í leikhúsháskólanum Instituto del Teatro í Barcelona og í leikhúsháskólanum DAMU í Prag. Hún er einnig menntuð í myndlist og útskrifaðist frá myndlistadeild Listaháskóla Íslands 2008.
Íslensku bjartsýnisverðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1981. Þau eru hugsuð sem viðurkenning og hvatning til íslenskra listamanna.
Upphafsmaður verðlaunanna var Daninn Peter Bröste en álverið í Straumsvík hefur verið bakhjarl þeirra frá því Bröste dró sig í hlé árið 2000.
Í dómnefnd verðlaunanna eru frú Vigdís Finnbogadóttir, Rannveig Rist, Sveinn Einarsson og Örnólfur Thorsson.
Verðlaunahafar undanfarin fimm ár voru Sigrún Eldjárn (2011), Gísli Örn Garðarsson (2010), Víkingur Heiðar Ólafsson (2009), Brynhildur Guðjónsdóttir (2008) og Guðný Halldórsdóttir (2007).
Frú Vigdís Finnbogadóttir, Helga Arnalds, Rannveig Rist og hr. Ólafur Ragnar Grímsson.
Frú Vigdís Finnbogadóttir lýsti vali dómnefndar.
Við athöfnina söng Graduale kór Langholtskirkju lag úr leikritinu "Skrýmslið litla systir mín" sem Helga setti upp fyrir nokkru og hlaut m.a. Grímuverðlaun fyrir bestu barnasýningu. Eivör Pálsdóttir samdi tónlistina í verkinu.
« til bakaDeila