20.03.2014
Tenging afsogslagna nýrra þurrhreinsistöðva
Í tengslum við tengingu afsogslagna nýrra þurrhreinsistöðva inn á núverandi afsogslagnir verða þurrhreinsistöðvar 1 og 2 stöðvaðar að hluta eða öllu leyti í nokkur skipti á tímabilinu 24. mars til 28. apríl.
Þessar framkvæmdir eru liður í því að draga úr losun flúoríðs og mun afsog af kerum aukast eftir að nýjar viðbótar þurrhreinsistöðvar verða teknar í notkun og álag á gömlu þurrhreinsistöðvarnar mun minnka. Einnig munu tveir nýir og hærri strompar taka við fjórum eldri strompum. Þegar sá búnaður verður tekinn í notkun mun útblástur flúors á hvert framleitt tonn minnka. Hér er því um að ræða bættar mengunarvarnir.
Þurrhreinsistöðvarnar gegna því hlutverki að hreinsa ryk og flúor úr útblæstri frá kerskálum. Það má því gera ráð fyrir sýnilegri mengun frá álverinu á meðan á aðgerðunum stendur. Þrátt fyrir aukna mengun á meðan á aðgerðum stendur verður útblástur vel undir viðmiðunarmörkum í starfsleyfi.
Sambærileg aðgerð var framkvæmd í nóvember árið 2011 þegar fyrsti stokkur nýrra þurrhreinsistöðva var tengdur inn á núverandi afsogslagnir. Aðgerðin hafði óveruleg áhrif á flúor í útblæstri með tilliti til mánaðarmeðaltals.
Aðgerðirnar hafa verið vel undirbúnar til að stuðla að því að þær taki sem stystan tíma.
Framkvæmdin hefur verið kynnt Heilbrigðiseftirliti og Umhverfisstofnun, sem gerir ekki athugasemdir við hana.
« til bakaDeila