04.01.2016
Ólafur Arnalds hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin
Ólafur Arnalds tónlistarmaður hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin sem afhent voru á Kjarvalsstöðum sl. laugardag.
Bjartsýnisverðlaunin eru menningarverðlaun sem hafa verið afhent árlega frá árinu 1981. Upphafsmaður þeirra var danski athafnamaðurinn Peter Bröste, en ISAL hefur verið bakhjarl þeirra allt frá því að Peter dró sig í hlé árið 2000.
Í dómnefnd verðlaunanna eru frú Vigdís Finnbogadóttir, Rannveig Rist, Þórunn Sigurðardóttir og Örnólfur Thorsson.
Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin, sem eru áletraður gripur úr áli og verðlaunafé kr. einn milljón.
Í þakkarávarpi sínu lét Ólafur Arnalds þess getið að hann hefði ákveðið að gefa Barna- og unglingageðdeild Landspítalans verðlaunaféð til þess að kaupa hljóðfæri.
Þótt Ólafur sé aðeins 29 ára er ferilskráin þegar orðin löng. Hann hefur gefið út fimm hljómplötur í fullri lengd, þrjár í eigin nafni og tvær með öðrum, og auk þess sex styttri hljómplötur. Hann hefur samið tónlist við fjórar kvikmyndir í fullri lengd, tvær erlendar og tvær íslenskar, Óróa og Vonarstræti. Sú síðarnefnda hlaut Eddu-verðlaun fyrir bestu tónlist. Hann samdi tónlistina við tvær fyrstu seríur bresku sjónvarpsþáttanna Broadchurch, alls sextán þætti, og vinnur að því að semja tónlist við þriðju seríuna. Fyrir tónlistina við fyrstu seríuna hlaut Ólafur hin virtu bresku BAFTA-verðlaun. Þá hefur hann gert tónlist við nokkur dansverk og tvær stuttmyndir.
Tónlist Ólafs hefur verið notuð í fjölmörgum kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og auglýsingum. Má þar nefna kvikmyndina Hunger Games, sjónvarpsþættina So You Think You Can Dance þar sem lög hans hafa margoft verið notuð í dansatriðum, og auglýsingar fyrir Apple, svo að fáein dæmi séu nefnd.
Við athöfnina lék Ólafur verkið "Ljósið" af plötu sinni Found Songs frá árinu 2009. Með honum léku Björk Óskarsdóttir á fiðlu og Vikto Orri Árnason á víólu.
« til bakaDeila