07.06.2016
Vegna fyrirspurnar á Alþingi um fjármál álfyrirtækja
Í framhaldi af svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur alþingismanns um fjármál álfyrirtækja koma hér viðbótarsvör hvað varðar álverið í Straumsvík.
Upplýsingarnar sem spurt var um liggja að mestu leyti fyrir í opinberum ársreikningum Rio Tinto Alcan á Íslandi hf.
Arðgreiðslur árin 2009-2015, þ.e. á því árabili sem spurt var um, voru engar.
Vaxtakostnaður áranna 2009-2015 var lítill sem enginn eða samtals 1,1 milljón dollara.
Langtímaskuldir fyrirtækisins við móðurfélagið voru engar í upphafi tímabilsins og engin breyting varð á því á tímabilinu. Langtímaskuldir við aðra aðila voru í árslok 2015 aðeins um 11 milljónir dollara.
Það er annars lykilatriði varðandi gjaldeyrisjöfnuð af starfsemi álvera að villandi er að einblína á útflæði gjaldeyris (meint eða raunverulegt) fremur en að horfa á heildarmyndina, þ.e. nettó-niðurstöðuna fyrir Ísland.
Að sjálfsögðu fer hluti stór hluti tekna álvera í að greiða erlendan kostnað, aðallega hráefniskostnað. Þess vegna hafa álverin og samtök þeirra, Samál, á undanförnum árum lagt áherslu á að kynna NETTÓ-gjaldeyristekjur frekar en heildargjaldeyristekjur.
Þetta nettó-innflæði gjaldeyris, sem er einfaldlega innlendur kostnaður álveranna, hefur á undanförnum árum verið á bilinu 90 til 100 milljarðar króna á ári. Engin önnur tala skiptir í raun máli fyrir gjaldeyrisjöfnuð Íslands.
Álver Rio Tinto í Straumsvík hefur einstaklega góða sögu að segja þegar litið er til áranna eftir hrun.
Fjárfestingar Rio Tinto á Íslandi árin 2009-2015 nema hvorki meira né minna en 562 milljónum dollara á verðlagi hvers árs eða 70 milljörðum króna á núverandi gengi.
Fullyrða má að ekkert annað fyrirtæki hafi fjárfest viðlíka mikið á Íslandi eftir hrun.
Stærstu verkefnin lutu að því að framleiða verðmætari afurðir, auka framleiðslugetuna, bæta mengunarvarnir og efla rafbúnað. Þessi verkefni sköpuðu yfir 1.000 viðbótar ársverk eftir hrun eða sem jafngildir því að reka 100 manna fyrirtæki í 10 ár.
Ekki þarf að fjölyrða um að þetta kom á besta tíma fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf, þegar önnur umsvif í atvinnulífinu voru í lágmarki.
Þessar miklu fjárfestingar hafa næstum alfarið verið fjármagnaðar með uppsöfnuðum hagnaði álversins frá árunum á undan og með hlutafjáraukningu móðurfélagsins. Með því er ekki sagt að óeðlilegt sé að fjármagna slík verkefni að stórum hluta með lánsfé, síður en svo, en sú var sem sagt ekki raunin hér.
Virðingarfyllst,
Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi
« til bakaDeila