29.12.2017
Rio Tinto styrkir íþróttastarf í Hafnarfirði
Rio Tinto á Íslandi, Hafnarfjarðarbær og Íþróttabandalag Hafnarfjarðar hafa undirritað þriggja ára samning um eflingu íþróttastarfs yngri en 18 ára iðkenda íþróttafélaganna í Hafnarfirði. Er þetta sjötti samningurinn sem þessir aðilar gera af þessu tagi.
Samningurinn gildir frá 1. janúar 2017 og út árið 2019. Árið 2017 greiðir hvor aðili 9 m.kr. á ári. Árin 2018 og 2019 hækkar framlagið í 10 m.kr. Samtals eru þetta 58 milljónir króna sem munu nýtast vel.
Í samningnum er áhersla lögð á að jafna hlut kynja í íþróttum og að efla menntun leiðbeinanda auk þess að stuðla að lækkun æfingagjalda.
Sú nýbreyttni er í þessum samningi að á tímabilinu stendur til að rannsaka þau áhrif sem stuðningurinn og hvatar í honum hafa haft í gegnum tíðina.
Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjóri í Hafnarfirði, Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto á Íslandi hf og Hrafnkell Marinósson formaður ÍBH undirrituðu samninga á íþróttahátíð Hafnarfjarðar sem fór fram 27. desember sl.
Við athöfnina voru veittir styrkir fyrir árið 2017 og fengu 13 íþróttafélög í Hafnarfirði styrki fyrir samtals 18 milljónir króna.
« til bakaDeila