05.06.2019
Íþróttaskyrkir afhentir í Straumsvík
Úthlutun íþróttastyrkja fyrir yngri en 18 ára iðkendur aðildarfélaga ÍBH fór fram þriðjudaginn 4. júní sl. samkvæmt samningi milli Íþróttabandalagsins í Hafnarfirði, Rio Tinto á Íslandi hf. og Hafnarfjarðarbæjar. Athöfn fór fram í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Straumsvík þar sem fulltrúar félaganna tóku á móti styrkjunum úr hendi Rannveigar Rist, forstjóra.
Samningur hefur verið í gildi frá árinu 2001 á milli Íþróttabandalagsins í Hafnarfirði, Rio Tinto og Hafnarfjarðarbæjar. Samningar hafa verið gerðir til þriggja ára í senn og er nýjasti samningurinn frá árinu 2017 og lýkur honum í árslok 2019.
Rio Tinto og Hafnarfjarðarbær greiða 10 milljónir á ári hvor aðili inn í samstarfið til stuðnings íþróttum barna og unglinga í Hafnarfirði. Að þessu sinni var úthlutað 60% af framlagi ársins vegna iðkendafjölda sem æfir reglulega í félögunum og jafnréttishvata, samtals 12 milljónir. Félögin sem hljóta styrk eru: Fimleikafélag Hafnarfjarðar, Fimleikafélagið Björk, Knattspyrnufélagið Haukar, Brettafélag Hafnarfjarðar, Sundfélag Hafnarfjarðar, Badmintonfélag Hafnarfjarðar, Hestamannafélagið Sörli, Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar, Golfklúbburinn Keilir, Siglingaklúbburinn Þytur, Íþróttafélagið Fjörður og Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar.
Jafnréttishvataverðlaun 2019 hlutu Brettafélag Hafnarfjarðar kr. 500.000 fyrir mestu prósentufjölgun þess kyns sem hallaði á (stúlkur) og Fimleikafélagið Björk kr. 500.000 fyrir mestu iðkendafjölgun þess kyns sem hallaði á (strákar).
« til bakaDeila