02.01.2021
Ari Eldjárn hlýtur Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2020
Ari Eldjárn, uppistandari og handritshöfundur, hlýtur Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2020 sem afhent voru við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin, sem eru áletraður gripur úr áli frá ISAL í Straumsvík og ein milljón króna í verðlaunafé.
Bjartsýnisverðlaunin eru menningarverðlaun sem hafa verið afhent árlega frá árinu 1981. Upphafsmaður þeirra var danski athafnamaðurinn Peter Bröste en ISAL álverið í Straumsvík hefur verið bakhjarl verðlaunanna frá því að Bröste dró sig í hlé árið 2000. Forseti Íslands hefur frá upphafi verið verndari verðlaunanna.
Ari Eldjárn lauk stúdentsprófi frá Nýmáladeild 2 í Menntaskólanum í Reykjavík sem hafði mikil áhrif á hans feril og grín. Ari stundaði MA nám í handritsgerð í London Film School árið 2006 og vann ýmis störf en frá árinu 2009 hefur uppistand verið hans aðalatvinna. Ari hefur komið fram með uppistandshópnum Mið-Ísland á meira en 400 sýningum og hefur skrifað handrit að fjórum Áramótaskaupum. Ari hefur komið fram í sýningarröðum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og skrifað og leikið í þáttunum Drekasvæðið. Frá 2016 hefur Ari sýnt yfir 40 sýningar af Áramótaskopinu, sýnt yfir 100 sýningar á ensku á Fringe hátíðinni í Edinborg, Melbourne International Comedy Festival og í Soho Theatre í London. Árið 2020 sendi Ari frá sér þáttinn Pardon My Icelandic sem sýndur er á Netflix og er aðgengilegur í 190 löndum.
Í umsögn dómnefndar kemur fram að Ari tilheyri fámennum hópi listamanna sem er bæði nýr en á sér langa sögu um allan heim sem tengja saman margar ólíkar listgreinar. Ari segir sögur, af sjálfum sér, úr sínu nærumhverfi sem eru bráðfyndnar. Hann hefur einstakan húmor fyrir sjálfum sér, þjóðinni og manneskjunni. Ari er sagnamaður nútímans og er frábær fulltrúi íslenskrar menningar.
Í dómnefnd Íslensku bjartsýnisverðlaunanna eru Þórunn Sigurðardóttir, Magnús Geir Þórðarson, Rannveig Rist og Örnólfur Thorsson
.
« til bakaDeila