16.07.2004
Bjargaði lífi barns
Þetta var á föstudegi er þau hjónin voru að leggja af stað í helgarferð austur í Brekkuskóg í Biskupstungum. Þau höfðu nýlega keypt sér stóran húsbíl og var ætlunin að prufukeyra bílinn. Þau voru vart búin að aka í nema nokkrar mínútur þegar eiginkona hans, Margrét Helgadóttir, sá konu sem stóð fyrir utan bíl á Reykjanesbrautinni í Garðabæ og heldur uppi ungabarni og hristir það. Margrét sá að konan var í miklu uppnámi og eitthvað alvarlegt hafði komið fyrir.
Hjörtur stöðvaði bílinn í vegkantinum og gekk að konunni og áttaði sig fljótlega á ástandinu. Barnið var ekki með meðvitund. Hann tók barnið úr höndum móður sinnar og hóf strax lífgunaraðgerðir. Hann lagði barnið á magann í lófa sér og hóf að banka á bakið á því í þeirri von að ef eitthvað stæði fast í hálsi barnsins þá myndi það koma út. En það bar ekki árangur. Hjörtur fann heldur engann púls og gat ekki fundið að barnið andaði. Hann lagði því barnið á jörðina og hóf að reyna að blása lífi í það.
"Svo þegar ég blæs í þriðja skiptið þá frussaði hún framan í mig. Þá fór hún í gang. Það var dýrleg tilfinning," sagði Hjörtur.
Skömmu síðar kom sjúkrabíll en svo virðist sem sjúkraliðsmennirnir hefðu fengið rangar upplýsingar um staðsetninguna því Hjörtur minnist þess að hafa heyrt sírenuvæl allt um kring. Eftir að Hjörtur hrópaði til vegfarenda, sem höfðu hópast að, hvert lögreglan ætti að koma birtust þeir stuttu seinna og hlúðu að litlu stúlkunni sem var farin að hágráta.
Eftir á að hyggja segist Hjörtur hafa verið svo hissa á sjálfum sér hvernig hann brást við þessum aðstæðum og hve fumlaust hann gekk að því að bjarga barninu. Hann þakkar það alfarið þeim námskeiðum í skyndihjálp sem hann hefur sótt á hverju ári hjá álverinu í Straumsvík. Á þessum námskeiðum er m.a. farið í öll undirstöðuatriði skyndihjálpar og af þeim sökum vissi hann hvað þurfti til að fá barnið til að anda að nýju.
Í dag heilsast barninu vel en það reyndist hafa fengið heiftarlegan hitakrampa og af þeim sökum liðið út af.
"Ég held að okkur hafi verið ætlað að bjarga þessu barni," sagði Hjörtur þar sem hann hafi verið á báðum áttum hvort hann ætti nokkuð að vera að fara út úr bænum þessa helgi því spáin hafi ekki verið allt of góð. Eiginkona hans hvatti hann óspart til þess og sagði að hann hefði gott af því að komast aðeins út úr bænum. Hann er glaður í dag að hafa lagt upp í þetta ferðalag þar sem ferðalagið veitti honum lífsreynslu sem hann mun aldrei gleyma. Að bjarga mannslífi er dýrmæt reynsla en hann óskar engum að þurfa að lenda í þessum aðstæðum. Hann hvetur hins vegar alla til að kynna sér rækilega skyndihjálp því það sé svo mikilvægt að geta brugðist rétt við aðstæðum á slysstað.
"Það er svo mikilvægt að menn skipti sér af ef þeir sjá að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Að líta ekki undan heldur láti sig málið skipta og bregðast við, því það getur skipt sköpum eins og mörg dæmi sanna", sagði Hjörtur að lokum.
Við samgleðjumst Hirti og fjölskyldu barnsins með lífgjöfina og þökkum honum jafnframt fyrir gott veganesti.
« til bakaDeila