24.04.2004
Gulrófurækt
Fjölmargir gestir sýningarinnar Dagar umhverfisins, sem haldin var í Smáralind dagana 24. og 25. apríl, fengu afhentan lítinn fræpoka á kynningarbás okkar og var vísað á þessa vefsíðu til að afla sér frekari upplýsinga. Í pokanum er að finna fræ af rammíslenskum stofni og við hvetjum alla til að spreyta sig í rófurækt sem er einföld og skemmtileg.
Gulrófur þrífast yfirleitt vel í jarðvegi sem er hæfilega myldinn og rakaheldinn og við ræktun þeirra í heimagörðum koma helst tvær aðferðir til greina.
Sú fyrri er að sá beint í garðinn í raðir, eins snemma og tíðarfar leyfir og sem fyrst eftir lok jarðvinnslu til að nýta sem best jarðrakann og tímann. Gulrófnafræ er nokkuð smágert, og því ber að varast djúpa sáningu. Að öllu jöfnu ætti að hylja fræið með hálfs cm moldarlagi og gæta þess að raki sé í moldinni á meðan fræið spírar. Það verður aðeins tryggt með vökvun, ef úrkoma tryggir ekki nægan raka.
Önnur aðferð er að sá í potta eða moldarbakka og forrækta fræið innanhúss til að flýta fyrir uppskerunni. Þá er fræið sett mjög grunnt ofan í moldina og best er ef dýptin svarar til tvö- eða þrefaldrar þykktar fræsins. Mikilvægt er að vökva moldina og halda raka í henni á meðan fræ nær að spíra og í því skyni er gott að setja plast yfir bakkann á fyrstu stigum ræktunar. Eftir viku til tíu daga fara kímblöð að gæjast upp úr moldinni og í framhaldinu má koma plöntunni fyrir úti í garði. Þar má moldin ná að kímblöðunum, en rétt er að fara varlega og færa þau ekki í kaf.
Til áréttingar skal hér tekið fram, að leiðbeiningar þessar eru ekki tæmandi og rétt er að benda á sérfræðinga blómabúðanna sem selja fræ. Þeir geta án vafa gefið góð ráð ? og selt áhugasömum meiri fræ! Góða skemmtun.
« til bakaDeila