Hinn árlegi jólastyrkur ISAL var afhentur í gær og skiptist að þessu sinni milli þriggja aðila. Barnaspítali Hringsins fékk 400 þúsund krónur í sinn hlut, en hið merkilega starf sem unnið er á spítalanum er öllum kunnugt. Krossgötur, sem reka áfangaheimili fyrir fólk í vímuefnavanda, fengu 300 þúsund krónur og Klúbburinn Geysir fékk 300 þúsund. Klúbburinn Geysir er félag, sem hefur að markmiði að veita geðsjúkum þann stuðning, hjálp og leiðsögn sem nauðsynleg er til að taka þátt í samfélaginu eftir útskrift af geðdeildum. Það er trú ISAL að styrkirnir komi að góðum notum og styrkfénu sé vel varið. Á meðfylgjandi mynd eru f.v. Ragnheiður Sigurðardóttir, frá Barnaspítala Hringsins, Rannveig Rist, forstjóri ISAL, Anna Valdemarsdóttir, framkvæmdastjóri Klúbbsins Geysis, og Kolbeinn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Krossgatna.