28.05.2008
Útskrift Stóriðjuskólans í dag - 10 ár frá stofnun í ár
Útskrift nemenda úr grunnnámi Stóriðjuskóla Alcan á Íslandi hf. (ISAL) fór fram í álverinu í Straumsvík í dag, miðvikudaginn 28. maí.Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi hf. útskrifaði nemendur og Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra flutti ávarp við útskriftarathöfnina.
Stóriðjuskólinn hefur verið starfræktur frá árinu 1998 og í ár eru því 10 ár liðin frá stofnun skólans. Fyrsti hópurinn hóf nám árið 1998 og fyrsta útskriftin var í byrjun árs 2000. Nú útskrifuðust 11 einstaklingar úr grunnnámi skólans með titilinn stóriðjugreinir en þeir hófu nám í Stóriðjuskólanum í janúar 2007. Hafa þá alls 183 starfsmenn útskrifast sem stóriðjugreinar úr grunnnámi skólans. Framhaldsnám var sett á laggirnar haustið 2004 og 11 hafa útskrifast með titilinn áliðjugreinir.
Mikið er lagt í fræðslumál hjá Alcan á Íslandi hf. en segja má að Stóriðjuskólinn skipi þar stærstan sess. Starfsmenntasjóður Félagsmálaráðuneytisins veitti á sínum tíma Stóriðjuskólanum styrki til námsefnisgerðar. Unnið var námsefni og námskrá sem öðlaðist viðurkenningu Menntamálaráðuneytisins árið 2002 sem hluti af námsefni framhaldsskóla. Námið var metið til 24 eininga og hefur sú viðurkenning ráðuneytisins hvatt starfsfólk enn frekar til að nýta sér það lærdómsferli og lærdómsmenningu sem fyrirtækið hefur þróað með sér. Fyrirtækið hlaut Starfsmenntaverðlaunin árin 2000 og 2006, en þau eru veitt af Starfsmenntaráði og Mennt.
« til bakaDeila