28.12.2004

Stuðningur við íþróttastarf barna í Hafnarfirði

Nýr samningur um stuðning Alcan á Íslandi við barna- og unglingastarf íþróttafélaganna í Hafnarfirði var undirritaður þriðjudaginn 28. desember. Samningurinn er til þriggja ára og munu aðildarfélög Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH) á næstu þremur árum fá frá fyrirtækinu samtals 15 milljónir króna, sem eyrnamerktar eru barna- og unglingastarfinu.

Samningurinn byggir á eldri samningi sem rennur út um áramótin milli fyrirtækisins, ÍBH og Hafnarfjarðarbæjar. Reynsla fyrirtækisins af samstarfinu er góð og því var ákveðið að halda því áfram. Nokkrar breytingar hafa þó verið gerðar á samningnum - styrkupphæðin frá Alcan hækkar úr 12 milljónum í 15 milljónir króna á þremur árum en á móti eru ríkari skyldur lagðar á íþróttafélögin, t.d. varðandi merkingar.

Miðað er við að 60% af heildarupphæð samningsins skiptist með milli aðildarfélaga ÍBH eftir fjölda iðkenda 16 ára og yngri. 40% upphæðarinnar er hins vegar skipt samkvæmt menntunarstigi þeirra sem sinna þjálfun og fræðslu á vegum félaganna og er þá horft til ýmissa námskeiða sem tengjast íþróttaþjálfun; menntunarstiga ÍSÍ og sérsambanda innan íþróttahreyfingarinnar, íþróttakennaramenntunar, þjálfaranáms á háskólastigi o.fl. Með þessu er ætlunin að hvetja til faglegra vinnubragða á sem flestum sviðum barna- og unglingastarfsins og tryggja þannig ánægju iðkendanna og aðstandenda þeirra.


« til baka