03.12.2004
Sjálfboðavinna rafiðnaðarmanna
Stór hópur rafiðnaðarmanna úr Straumsvík hefur á undanförnum mánuðum unnið í sjálfboðavinnu við uppsetningu á bruna-viðvörunarkerfi í Krýsuvíkurskóla, þar sem rekið er meðferðarheimili fyrir langt leidda vímuefna-neytendur. Samtals hefur hópurinn gefið um 480 vinnustundir og ef miðað er við algengt verð á útseldri vinnu rafiðnaðarmanna er virði þessa framlags um 1,4 milljónir króna.
Eftir að krafa var gerð um að brunaviðvörunarkerfi yrði sett upp á staðnum fór áhugafólk um starfsemina á stúfana og fékk kerfið sjálft á mjög góðum kjörum. Til að kerfið nýttist sem skyldi þurfti hins vegar að kosta til mikilli vinnu við uppsetningu þess og þar komu Straumsvískir rafiðnaðarmenn til sögunnar. Til þeirra var leitað eftir aðstoð og viðbrögðin voru hreint út sagt frábær.
Verkinu er nú loks lokið, en hópurinn hefur farið ótal ferðir til Krýsuvíkur svo verkið mætti klárast. Framtak þeirra er til mikillar fyrirmyndar og er fyrirtækið stolt af sínu fólki, sem sjálft hafði allt frumkvæði í málinu.
« til bakaDeila