21.02.2003
Góð afkoma þrátt fyrir lágt álverð
Hagnaður Alcan á Íslandi fyrir skatta árið 2002 nam tæpum 3,5 milljörðum króna. Skattgreiðslur vegna ársins eru tæpur 1,1 milljarður króna og hagnaður eftir skatta er því 2,4 milljarðar.
Stjórnendur Alcan á Íslandi eru ánægðir með rekstrarniðurstöður ársins, sérstaklega í ljósi þess að meðalverð ársins var aðeins 1365 USD á tonnið og hafði ekki verið lægra í 9 ár. Metframleiðsla í kerskálum álversins í Straumsvík vó upp lágt verð, þar sem framleidd voru 173.500 tonn. Að auki voru flutt til landsins tæp 22 þúsund tonn af umbræðsluáli, sem breytt var í verðmeiri afurð í Straumsvík og flutt aftur úr landi. Þannig seldi Alcan á Íslandi um 194.000 tonn á árinu 2002 og fékk fyrir rúma 27 milljarða króna.
Við síðustu stækkun verksmiðjunnar í Straumsvík, árið 1997, var árleg framleiðslugeta í kerskálum álversins áætluð 162.000 tonn. Framleiðsla síðasta árs var hins vegar 7% hærri sem skýrist af af straumhækkunum, breyttum áherslum í stjórnun og jafnari kerrekstri.
Horfur fyrir þetta ár eru ágætar, þótt ekki sé búist við verulegum hækkunum á álverði. Hins vegar stefnir Alcan á Íslandi að enn meiri framleiðslu í kerskálum á þessu ári en því síðasta.
« til bakaDeila