19.11.2010
Samtök álframleiðenda stofnuð
Samtök álfyrirtækja á Íslandi - Samál - tóku formlega til starfa í gær. Aðild að samtökunum eiga Alcan á Íslandi, Alcoa Fjarðaál og Norðurál. Framkvæmdastjóri samtakanna er Þorsteinn Víglundsson.
Markmið Samáls er að vinna að hagsmunum og framþróun íslensks áliðnaðar og að auka upplýsingagjöf um áliðnaðinn. Samtökin hafa í því skyni opnað metnaðarfulla heimasíðu með margvíslegum upplýsingum um iðnaðinn, sjá hér: www.samal.is.
Í nýrri skoðanakönnun kemur fram að liðlega 54% landsmanna eru jákvæðir gagnvart íslenskum áliðnaði, liðlega 23% landsmanna eru hlutlausir í afstöðu sinni til iðnaðarins en einungis 22% landsmanna segjast neikvæðir gagnvart áliðnaði hér á landi. Aðeins einn af hverjum fjórum telur sig þekkja vel til starfsemi álfyrirtækjanna, sem undirstrikar þörfina á bættri upplýsingamiðlun. Þá er meirihluti landsmanna þeirrar skoðunar að álfyrirtækin standi sig vel í umhverfismálum, öryggismálum og stuðningi við samfélagsleg verkefni.
Helstu niðurstöður úr könnuninni má sjá með því að smella hér.
Rannveig Rist er stjórnarformaður Samáls. Hér á eftir fer í heild sinni ræða sem hún hélt á blaðamannafundinum þar sem stofnun samtakanna var kynnt:
-----
Verið hjartanlega velkomin á þennan blaðamannafund, þar sem kynnt er stofnun Samáls – Samtaka álframleiðenda á Íslandi.
Megintilgangurinn með stofnun samtakanna er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum þessa iðnaðar, sem hefur verið starfræktur hér á landi farsællega í yfir 40 ár og er nú orðinn ein helsta útflutningsgrein landsins.
Það er auðvelt að kasta fram hugtökum á borð við „sameiginlega hagsmuni“, en hverjir eru sameiginlegir hagsmunir álfyrirtækja?
Jú, þeir eru fyrst og fremst að stuðla að aukinni upplýsingagjöf um atvinnugreinina.
Því það er ekki aðeins skylda okkar gagnvart samfélaginu sem við störfum í að veita upplýsingar, heldur er það sannfæring okkar að það sé fyrirtækjunum sjálfum til framdráttar.
Því betur sem fólk þekkir okkur, því jákvæðara er það í okkar garð.
Þetta er ekki fullyrt hér út í bláinn, því skoðanakannanir sem gerðar hafa verið fyrir álverið í Straumsvík hafa sýnt að viðhorf í garð álveranna eru jákvæðust meðal þeirra sem búa næst þeim. Við erum stolt af þeirri staðreynd, því hún bendir til þess að okkur hafi tekist ágætlega það ætlunarverk okkar að vera góður nágranni. Við höfum metnað til að halda því áfram gera enn betur.
Þótt viðhorfin séu jákvæðust meðal okkar næstu nágranna er það þó ekki þannig að aðrir landsmenn séu upp til hópa andvígir álverum.
Sjónarmið þeirra, sem eru af ýmsum ástæðum lítt hrifnir af álframleiðendum, eru gjarnan áberandi í fjölmiðlum. En samkvæmt skoðanakönnunum er ljóst að þeir tala ekki fyrir hönd meirihluta þjóðarinnar.
Ný könnun sem gerð hefur verið fyrir Samál staðfestir svipaða niðurstöðu og við höfum séð í fyrri könnunum. Fyrir hverja tíu sem eru neikvæðir í garð álvera eru tuttugu og fjórir jákvæðir.
Samtök álframleiðenda eru þess vegna ekki stofnuð í vörn, heldur í sterkri stöðu, og með þá sannfæringu í brjósti að Íslendingar eigi með réttu að vera stoltir af sinni álframleiðslu.
Flestir vita, að álverin á Íslandi eru vel rekin, skapa fjölmörg störf og þykja eftirsóknarverðir og góðir vinnustaðir.
Flestir vita líka , að álverin á Íslandi eru með þeim bestu þegar kemur að umhverfismálum; að þau hafa að sumu leyti náð árangri á heimsmælikvarða í þeim efnum; og að það er umhverfisvænt í hnattrænum skilningi að framleiða ál með hreinni orku á Íslandi, fremur en með kolaorku annars staðar í heiminum.
Flestir vita, að álverin á Íslandi hafa náð framúrskarandi árangri í öryggismálum, og að þau leggja mikið upp úr því að styðja við samfélagsleg verkefni.
Og flestir vita, að ál er umhverfisvænn málmur, sem dregur úr þyngd ökutækja og minnkar þannig mengun frá þeim, og að álið má endurvinna aftur og aftur.
En það er líka margt sem fáir vita.
Fáir gera sér til dæmis grein fyrir því hve mikla þjónustu álverin kaupa á Íslandi af öðrum íslenskum fyrirtækjum. Við höfum tekið saman lista yfir þau íslensku fyrirtæki sem álverin þrjú, hvert fyrir sig, hafa keypt af vörur eða þjónustu fyrir meira en hálfa milljón króna það sem af er þessu ári. Hér er um að ræða hvorki fleiri né færri en 690 fyrirtæki. – Í mörgum tilvikum nema viðskiptin tugum milljóna króna á ári, jafnvel hundruðum milljóna, og í nokkrum tilvikum milljörðum.
Mörg þessara fyrirtækja væru ekki starfandi ef álverin væru ekki til staðar. Allnokkur þeirra hafa beinlínis orðið til vegna álveranna. Álverin hafa verið jarðvegur fyrir nýsköpun: nýja starfsemi, ný fyrirtæki, nýja þekkingu. Hvergi er þetta eins skýrt og í orkugeiranum, þar sem álframleiðsla hefur verið forsenda uppbyggingar sem hefur skapað dýrmæta þekkingu á sviði virkjana, bæði vatnsafls og jarðvarma. Þessi þekking er mikil auðlind, ekki síður en sjálf orkan. Annað gott dæmi um nýsköpun sem sprottið hefur úr jarðvegi álveranna er fyrirtækið Stímir – nú hluti af Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar – sem finnur upp, þróar og smíðar margvíslegan búnað fyrir álver, og selur þennan búnað út um allan heim.
Jafnvel þótt Samál nái þeim tilgangi sínum að upplýsa betur um þessa þætti, og annað sem lýtur að starfsemi álvera á Íslandi, vitum við ósköp vel að skoðanir verða áfram skiptar. Það er eðlilegt.
Og það er líka ósköp eðlilegt að stórum fyrirtækjum sé sýnt aðhald. Við þekkjum jú nýleg dæmi um hvernig getur farið þegar aðhaldið er slakt. Við kveinkum okkur ekki né víkjum okkur undan málefnalegri umræðu. Við óskum hins vegar eftir því að hún verði málefnaleg.
Við vonum líka að hætt verði að stilla málum þannig upp að valið standi á milli álvera og annarra atvinnugreina. Ein grein útilokar ekki aðra. Til dæmis er oft rætt um gróðurhús, en það er staðreynd að til að tvöfalda starfsemi gróðurhúsa á Íslandi þyrfti ekki nema vel innan við 1% af því rafmagni sem álverin nota. Það er því fjarri lagi að álver útiloki uppbyggingu á öðrum sviðum. Þetta snýst ekki alltaf um annað hvort eða, þótt málum sé oft stillt upp þannig.
Það hefur hins vegar geysilega mikila þýðingu fyrir Ísland að hlúa að og efla þá starfsemi sem við erum góð í, nýta styrkleika okkar, nýta samkeppnisforskot okkar, til að skapa raunveruleg verðmæti.
Frá blaðamannafundinum þar sem stofnun Samáls var kynnt: Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls, Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samáls, Rannveig Rist forstjóri Alcan á Íslandi og Tómas Már Sigurðsson forstjóri Alcoa Fjarðaáls.
« til bakaDeila