01.06.2012
Íbúafundur í Hafnarfirði - glærur
Sjálfbærniskýrsla ISAL fyrir árið 2011 var kynnt á vel heppnuðum íbúafundi í Hafnarborg í liðinni viku.
Hægt er að nálgast glærukynninguna sem kynnt var á fundinum með því að smella hér.
Tuttugu og fimm manns sóttu fundinn og spurðu ýmissa spurninga í fundarlok.
Meðal annars var spurt hvort hægt væri að vinnan endanlegar neysluvörur úr nýju framleiðsluafurðinni sem ISAL mun framleiða frá og með þessu ári, þ.e.a.s. sívalningunum sem nefnast boltar.
Rannveig Rist forstjóri svaraði því til að slík endavinnsla væri ekki sérsvið Rio Tinto Alcan, en áhugavert gæti verið fyrir aðra aðila að skoða það því vissulega gætu minni fyrirtæki unnið úr boltunum en börrunum sem álverið framleiðir í dag. Samál, samtök álframleiðenda, hafa raunar látið gera sérstaka úttekt á þessu og varð niðurstaðan sú að samkeppnisforskot Íslendinga við mögulega úrvinnslu á boltum lægi fyrst og fremst í launakostnaði.
Einnig var spurt hvort frekari stækkun álversins væri fyrirhuguð. Ólafur Teitur Guðnason, framkvæmdastjóri samskiptasviðs, sagði að Rio Tinto Alcan teldi að frekari framkvæmdir á Íslandi gætu verið áhugaverður kostur bæði fyrir fyrirtækið og samfélagið en tvö meginskilyrði þyrftu að vera fyrir hendi: annars vegar skýr og yfirlýstur vilji samfélagsins og hins vegar að samningar tækjust um orkukaup. Aðaláhersla fyrirtækisins í dag væri hins vegar á hið viðamikla fjárfestingarverkefni sem núna stendur yfir í Straumsvík.
Stefnt er að því að halda samskonar íbúafund að ári þegar Sjálfbærniskýrsla 2012 kemur út.
Frá vinstri: Guðrún Þóra Magnúsdóttir leiðtogi sjálfbærni, Ólafur Teitur Guðnason framkvæmdastjóri samskiptasviðs og Rannveig Rist forstjóri.
Nokkrir fundargesta í Hafnarborg.
« til bakaDeila