Kerbrot og flæðigryfjur
Við álframleiðslu myndast mikill hiti í kerunum og því þarf að fóðra þau að innan með eldþolnum steinum af ýmsu tagi. Í botni keranna eru svo bakskaut úr kolefnum sem hafa það hlutverk að leiða rafstraum út úr kerinu.
Vegna mikils álags á fóðringuna þarf reglulega að endurfóðra kerin og er gamla fóðringin þá brotin úr þeim. Ný er sett í staðinn en mest af þeirri gömlu er urðuð á sérstökum urðunarstað, eins og gert er ráð fyrir í starfsleyfi verksmiðjunnar. Þennan urðunarstað, sem staðsettur er við sjóinn, köllum við flæðigryfjur og gömlu fóðringuna köllum við kerbrot.
Þegar kerbrotin eru sett í flæðigryfjurnar er skeljasandi blandað saman við þau. Hár grjótgarður ver þær fyrir öldugangi en í þeim gætir sjávarfalla og því flýtur sjór yfir efnin á botni gryfjunnar. Við það verður efnahvarf og úrgangsefnin hlutleysast með tímanum, án þess að hafa skaðleg áhrif á lífríkið.
Þegar flæðigryfjurnar eru teknar úr notkun er þeim lokað með skeljasandi og mold áður en tyrft er yfir þær.
Smelltu á skýringarmyndina hér að ofan til að stækka hana.
Rannsóknir hafa verið gerðar frá 1990 af Háskóla Íslands og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins á áhrifum flæðigryfja á lífríkið. Þær sýna að áhrifin eru hverfandi.
Í sátt við umhverfið
- Meðhöndlun kerbrota hjá Alcan í Straumsvík er viðurkennd af Umhverfisstofnun og er að öllu leyti í samræmi við starfsleyfi verksmiðjunnar.
- Aðferðin er viðurkennd skv. BAT-skýrslum (Best Available Technic) Evrópusambandsins.
- Engin neikvæð áhrif á lífríkið hafa fundist í rannsóknum sem gerðar hafa verið á flæðigryfjunum og næsta nágrenni þeirra.