Notkunarmöguleikar
Notkun áls á ýmsum sviðum jókst jafnt og þétt alla síðustu öld og ekkert lát er á þeirri þróun. Listinn yfir notkunarmöguleikana lengist þannig stöðugt, því hann eru einungis háður hugarflugi þeirra sem hanna og þróa nýjar vörur af ýmsu tagi.
Nýjar hugmyndir verða að veruleika á hverjum degi fyrir tilstilli álsins. Notkuninni má skipta í nokkra meginflokka:
- Um fimmtungur álnotkunar er í byggingariðnaði. Brýr, gríðarstór þök, hvolf yfir markaði og íþróttahallir eru dæmi um mannvirki þar sem ál er notað. Ál er heppilegur kostur í þök, klæðningar, stiga, handrið, gluggakarma, hurðir og klæðningar innanhúss.
- Um fjórðungur álnotkunar heimsins í flutninga- og fartækjaiðnaði. Áhersla er lögð á að minnka þyngd farartækja til að draga úr orkunotkun og mengun. Í þessu tilliti eru yfirburðir álsins miklir. Það er notað í burðargrindur, klæðningar, raflagnir og rafkerfi í flugvélum. Í fólksbifreiðum og vöruflutningabifreiðum má nota það í grindur, yfirbyggingar, blokkir, stimpla, lok, stuðara, hjól o.s.frv. Notkun áls í lestum, lestarvögnum, fólksflutningabílum og bátum fer einnig stöðugt vaxandi. Um 40 milljónir bíla eru framleiddar í heiminum á hverju ári. Vaxandi álnotkun í bílaframleiðslu veldur því aukinni spurn eftir málminum. Á hinn bóginn skiptir flugvélaframleiðsla mun minna máli, þar sem aðeins eru framleiddar um þúsund flugvélar í heiminum á ári. Þannig afhenda tveir stærstu flugvélaframleiðendur heims, Airbus og Boeing, aðeins um 600 flugvélar á ári.
- Umbúðir úr áli eru fyrirferðarlitlar, léttar og sterkar. Þær draga úr orkunotkun og kostnaði við dreifingu og endurheimtingu sökum þess að flutningskostnaður er lítill. Orka sparast auk þess þegar drykkir eru kældir í áldósum því málmurinn leiðir vel varma. Í drykkjarfernum er gjarnan þunn álfilma, sem tryggir að sólarljós komist ekki í gegnum fernuna og að innihaldinu.
- Um tíu prósent af álnotkuninni tengist raforkunotkun og raflínur úr áli hafa nær alveg tekið við af koparlínum. Ál er einnig að koma í stað kopars í spennubreytum. Vegna sveigjanleika og annarra eiginleika má líka nota ál í hlífar, töflur og annan búnað í fjarskiptum og raftækni. Ál má nota í skrifstofubúnað, öryggiskassa, gervihnattadiska, húsbúnað, sjónvarpstæki og hljómflutningstæki svo eitthvað sé nefnt.
- Um fjórðungur álnotkunar er í framleiðslu á alls konar neytendavörum svo sem húsgögnum, húsbúnaði, heimilistækjum o.s.frv. Flestir nota ál oft á dag, oft án þess að taka eftir því, enda er það m.a. notað í geisladiska, spegla, teljós (sprittkerti), reiðhjól, potta og pönnur.
- Ál er notað við framleiðslu á ýmsum iðnaðarvörum. Það er notað í yfirbyggingar skipa, þyrlupalla, landgöngubrýr, handrið, brunaveggi og fleira á hafi úti. Þá er súrál, eitt meginhráefnið við álframleiðslu, notað í ýmsar iðnaðar- og neytendavörur; t.d. steinull, tannkrem og skósvertu.