Eiginleikar álsins

Létt og sterkt
Eðlisþyngd áls er aðeins þriðjungur af eðlisþyngd stáls. Með því að blanda í það öðrum málmum, t.d. kopar, magnesíum eða mangani, er hægt að auka hörku þess og styrkleika verulega. Af þessum ástæðum hefur notkun áls í bílaframleiðslu aukist, en bílar úr áli eru léttari en aðrir, eyða minna bensíni og eru því umhverfisvænni.

Vörn gegn tæringu
Komist ál í snertingu við súrefni myndast á því húð áloxíðs sem ver það gegn tæringu. Unnt er að gera þessa húð varanlega, framkalla á henni gljáa, lita hana og lakka.

Góð leiðni
Ál leiðir vel rafmagn og varma, endurkastar ljósi og hita ágætlega, segulmagnast lítið og ekki varanlega sé það sett í segulsvið.

Auðmótanlegt
Ál er sveigjanlegt og bræðslumark þess er aðeins 660 °C. Það rennur auðveldlega í fljótandi formi og er auðmótanlegt bæði heitt og kalt.

Þétt og lyktarlaust
Álpappír er fullkomlega þéttur og hleypir hvorki ljósi, lykt né bragðefnum í gegn. Álpappír hefur engin áhrif á bragð matvæla sem hann er vafinn utan um.

Óeldfimt
Ál er óeldfimt og hentar því vel í byggingar og farartæki. Það brennur aðeins í duftformi eða örþunnt og bráðnar án þess að gastegundir myndist.

Vistvæn lausn
Afar auðvelt er að endurvinna ál vegna lágs bræðslumarks. Aðeins þarf 5% af orkunni sem notuð er við frumvinnslu áls til endurvinnslu þess. Þess vegna er ál oft kallað græni málmurinn