Sp. 1
Sp. 1: Hvað er í reyknum sem kemur frá álverinu og ég sé héðan af svölunum mínum?
Það er erfitt að fullyrða að óathuguðu máli hvað þú sérð af svölunum þínum, en mjög líklega ertu að tala um gufustrók sem kemur frá steypuskálanum. Þetta er reyndar ekki reykur heldur vatnsgufa, sem verður til við kælingu á málmi, en mjög algent er að fólk telji þetta vera eitthvað annað og meira. Við höfum velt því fyrir okkur að fjárfesta í búnaði til að þétta gufuna og koma þannig í veg fyrir að strókurinn verði til, en þar sem gufan er algjörlega skaðlaus og búnaðurinn dýr hefur ekki orðið af því. Hins vegar er spurning hvort það sé ekki orðið tímabært, því fólk virðist hafa áhyggjur af gufunni sem vissulega er óheppilegt fyrir okkur.
Hvað varðar annan útblástur frá verksmiðjunni, þá sést hann oftast nær lítið. Það gas sem verður til í kerunum er sogað inn í þurrhreinsistöðvar, þaðan sem flúor og ryk er hreinsað úr loftinu áður en hreinsuðu lofti er sleppt út um strompana á hreinsistöðvunum. Einu undantekningarnar á þessu eru þegar unnið er við opið ker, en þá sogast lítið af lofti inn í hreinsikerfið. Sem betur fer er sá tími stuttur og að meðaltali er ker opið í minna en eina mínútu af hverjum hundrað. Eitt efni, brennisteinsdíoxíð, er þó ekki hreinsað enda ekki talin þörf á því þar sem öll viðmiðunarmörk eru uppfyllt án sérstakrar hreinsunar. Reyndar telja sumir að efnið geri jarðveginum í nágrenni verksmiðjunnar gott, því hann sé mjög basískur og brennisteinn hafi því beinlínis jákvæð áhrif á hann. Fyrirtækið hefur í sjálfu sér ekki skoðun á því, en hér er þetta nefnt til vitnis um að málin geta haft ýmsar hliðar.
Við álvinnslu verða til koltvísýringur og svokölluð flúorkolefni en hvorugt þessara efna hefur bein skaðleg áhrif á nánasta umhverfi álvera. Hins vegar eru þetta gróðurhúsalofttegundir, sem mikilvægt er að halda í lágmarki og þá sérstaklega flúorkolefnin. Hér í Straumsvík höfum við náð mjög góðum árangri við að draga úr losun þeirra, en hann er meðal þess besta sem þekkist í heimi.