Upphafið

Vígsla álversins þann 3. maí 1970. Á myndinni má m.a. greina Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra, og Kristján Eldjárn, forseta ÍslandsSamningar um byggingu álvers á Íslandi voru undirritaðir árið 1966, en viðræður milli svissneska fyrirtækisins Alusuisse og ríkisstjórnar Íslands höfðu þá staðið yfir í nokkur ár.  Íslenska álfélagið hf. var stofnað og framkvæmdir hófust í Straumsvík. Þremur árum síðar hófst framleiðsla í fyrsta kerskálanum en verksmiðjan var formlega vígð í maí 1970 (sjá mynd).

Framleiðslugeta álversins var í upphafi um 33.000 tonn á ári í 120 kerum. Fyrsti kerskálinn var síðan lengdur og 40 ker til viðbótar tekin í notkun árið 1970. Byggingu á kerskála tvö var skipt í tvo áfanga. Fyrst voru 120 ker tekin í notkun árið 1972, en líkt og með kerskála eitt, þá var hann síðar meir lengdur og 40 ker til viðbótar tekin í notkun árið 1980.

Á þessum tíma var framleiðslugetan um 100.000 tonn á ári. Það var ekki fyrr en árið 1995 að ákveðið var að stækka verksmiðjuna enn frekar og byggja kerskála 3. Framkvæmdir stóðu í u.þ.b. tvö ár og var kerskáli þrjú, sá sem næst stendur Reykjanesbrautinni, tekinn í notkun síðla árs 1997. Framleiðslugetan var þá orðin um 162.000 tonn.

Framleiðsluvörur hafa líka breyst en ráðist var í viðamiklar fjárfestingar á árunum 2011-2014. Steypuskálanum var breytt og framleiðslu barra var hætt en hafin framleiðsla á ál-stöngum sem í daglegu talið eru kallaðir boltar, sem eru mun verðmætari afurð. Með þessum fjárfestingum og áherslu á stöðugar umbætur er framleiðslugetan nú um 208.000 tonn


 

Gamlar myndir

Framkvæmdirnar við byggingu álvers í Straumsvík og virkjunar við Búrfell voru gríðarlega umfangsmiklar á sínum tíma.  

Smellið á myndirnar hér að neðan til að skoða svipmyndir frá framkvæmdunum í Straumsvík á árunum 1967 til 1969.