Framleiðsla
Framleiðsla á áli í nútímalegu álveri byggir á háþróaðri tækni, öfugt við það sem margir halda. Allt framleiðsluferlið er tölvustýrt, tækjabúnaður er hátæknilegur og gerir ríkar kröfur til starfsmanna sem fylgjast með ferlinu og grípa inn í þegar þörf krefur.
Meginhráefnið við framleiðslu áls er súrál (Al2O3), hvítt duft sem er efnasamband áls og súrefnis. Í hverjum mánuði kemur skip með ríflega 30.000 tonn af súráli til Straumsvíkur sem er sogað upp og dælt í rauðu og hvítu súrálsgeymana sem einkenna athafnasvæðið. Þéttflæðikerfi er notað til að flytja súrálið úr hafnargeymunum til kerskálanna en með því er komið í veg fyrir rykmyndun við flutninginn, þar sem kerfið er algjörlega lokað.
Í kerskálunum eru samtals 480 ker og í þeim er álið framleitt. Súrálinu er dælt inn á kerin og þar leysist það upp í sérstakri flúorríkri efnabráð (raflausn) við 960°C. Þegar rafstraumur fer um bráðina klofnar súrálið í ál og súrefni. Þessi aðferð kallast rafgreining.
Til að rafgreining geti átt sér stað þarf að koma rafstraumi í gegnum kerið. Forskautin hafa það hlutverk en þau eru úr kolefnum. Straumurinn fer gegnum raflausnina og út úr kerinu um bakskautin, sem eru á botni kersins. Þegar straumurinn fer um raflausnina, klofnar súrálssameindin í frumefni sín, ál og súrefni. Álið fellur á botn kersins en súrefnið leitar upp á við, brennur með kolefnum forskautanna og myndar koltvísýring (CO2). Þannig eyðast forskautin á u.þ.b. 28 dögum og ný skaut eru sett í kerið. Leifarnar af notuðum skautum eru sendar úr landi til endurvinnslu, þar sem þær eru notaðar í framleiðslu á nýjum skautum.
Öll ker eru lokuð og því sogast afgasið sem myndast inn í þurrhreinsistöðvar þar sem flúor og ryk er hreinsað úr því. Í hreinsistöðvunum er súráli hleypt á móti afgasinu og festist þá flúorinn við súrálskornin. Þegar súrálinu er síðan dælt inn á kerin inniheldur það flúor, sem endurnýtist við framleiðsluna.
Hreinsunin fer fram í þremur þurrhreinsistöðvum og í dag er hreinsunin yfir 99,9% í nýjustu stöðinni, sem er með því besta sem þekkist. Árangurinn í hinum stöðvunum tveimur er um 99,2%. Rykið er hreinsað með sérstökum síum.
Á tveggja daga fresti er ál tekið úr kerunum. Kerið er þá opnað, röri stungið niður á botninn og fljótandi álið sogað upp í stórt ílát, svokallaða deiglu. Í deiglunum er fljótandi álið svo flutt yfir í steypuskálann þar sem því er breytt í fast form.
Steypuskálinn
Starfsfólk steypuskála sækir fljótandi ál í kerskála á sérútbúnum áltökubílum. Áltökubílarnir soga ákveðið magn af áli úr keri upp í einangraðan pott sem kallaður er deigla. Í deiglunum er fljótandi ál svo flutt yfir í steypuskálann þar sem því er breytt í fast form.
Í steypuskálanum er álið hreinsað í deiglunni síðan er fljótandi álinu dælt úr deiglunum yfir í blandofna. Þar er ýmsum efnum blandað í álið svo efnasamsetningin verði nákvæmlega eins og viðskiptavinurinn hefur óskað eftir. Hún ræður svo styrk álsins, seigju, tæringarþoli og fleiru.
Þegar réttri efnasamsetningu hefur verið náð er álinu helt úr ofninum um rennukerfi í steypuvélar. Á leiðinni fer það í gegnum gasmeðhöndlun, sem hreinsar burt síðustu óhreinindin áður en steypt er.
Í steypuskálanum eru framleiddir 7-8m langar stangir í tveim steypuvélum. Stöng er í raun sívalningur úr áli, sem getur verið mismunandi að sverleika. Þeir sem eru framleiddir hjá ISAL eru frá 178-305mm í þvermál. Eftir að stangirnar hafa verið steyptir fara þær í gegnum hitajöfnunarferli, en það hefur áhrif á efnafræðilega uppbyggingu þeirra.
Í steypuskálanum eru framleiddar um 200 mismunandi vörur. Úrgangsefni sem falla til í steypuskálanum eru endurnýtt eins og kostur er, afskurður og spónn sem fellur til við sögun er endurbræddur. Álgjall er einnig selt til endurvinnslu, en það er úrgangsefni úr hreinu áli og áloxíði sem verður til í framleiðsluferlinu.
Vissir þú að ..
- Hátæknilegur og flókinn búnaður stýrir öllu framleiðsluferli álversins.
- Meðallaun starfsmanna eru mun hærri en meðallaun í landinu.
- Við erum einn stærsti útflytjandi af vörum frá Íslandi.
- Starfsmenn eru tæplega 400