Sp. 2

Er það rétt sem ég heyrði, að ungir Hafnfirðingar vilji ekki vinna hjá fyrirtækinu og þess vegna séu hafnfirskir starfsmenn meira og minna að verða ellilífeyrisþegar?

Starfsmenn Alcan í Straumsvík eru í dag um 450 talsins. Rúm 46% þeirra búa í Hafnarfirði en hlutfall Hafnfirðinga meðal starfsmanna ISAL hefur alla tíð verið hátt. Næst flestir eru Reykvíkingar, eða um 30% af starfsfólkinu. Meðalaldur allra starfsmanna er um 46 ár og meðalstarfsaldurinn um 15 ár. Þessar tölur eru örlítið breytilegar eftir búsetu, þannig er meðalaldur Garðbæinga hæstur (50 ár) en meðalaldur starfsmanna sem búa í Vogunum lægstur (39 ár). Meðalaldur Hafnfirðinga sem vinna hjá fyrirtækinu er hins vegar mjög nálægt meðaltalinu og er 47 ár.

Það er því ekki rétt að flestir hafnfirskir starfsmenn okkar séu að að verða eldri borgarar. Við sjáum heldur ekki merki þess að Hafnfirðingar hafi misst áhugann á að starfa hjá fyrirtækinu og einnig eru mörg nýleg dæmi um að starfsmenn hafi flutt til Hafnarfjarðar eftir að hafa hafið störf hjá fyrirtækinu. Reyndar má geta þess að talsverð endurnýjun hefur orðið í starfsmannahópnum undanfarin ár og margir þeirra sem unnið höfðu í 30 ár eða lengur hjá fyrirtækinu hafa hætt störfum vegna aldurs. Þeir hafa notið góðs af sérstökum ákvæðum í kjarasamningi, sem þykja til mikillar fyrirmyndar en þau kveða á um “flýtt starfslok” og “hlutastarfsfrí.”