Sp. 3

Hversu mikil eru viðskipti Alcan við hafnfirsk fyrirtæki og hver eru þessi fyrirtæki?

Á árinu 2006 keypti Alcan vörur og þjónustu af fyrirtækjum í Hafnarfirði fyrir hátt í 2 milljarða króna. Hafnfirsk fyrirtæki sem þjónusta álverið eru eins ólík og þau eru mörg. Sum eru mjög sérhæfð og hafa beinlínis orðið til vegna starfsemi Alcan, en önnur eru almennari og starfa á stærri markaði.

Í fyrrnefnda hópinn má setja fyrirtæki eins Kerfóðrun, STÍMI hf. og Blendi en í þann síðari Hópbíla, Vélaverkstæði Hjalta, JRJ verktaka og GP Krana, svo dæmi séu tekin.  Ef allir hafnfirskir birgjar eru taldir með (blómabúðir, ljósmyndaframköllun og ýmislegt fleira tilfallandi) var heildarfjöldi þeirra árið 2006 á annað hundrað talsins, eða nákvæmlega 104 virkir birgjar.  Meðal þeirra sem við eigum veruleg viðskipti við mætti nefna Raf-x, Stálvirki, VSB Verkfræðistofu, ISO-tækni, Sandtak, Körfubílar, Trefjar, Augnsýn, Íssegl, KM Bygg, Véla- og skipaþjónustan Framtak, Hafnarfjarðarhöfn og Vörubretti.