Sp. 4
Hafa fyrirtæki í Hafnarfirði einhverja sérstöðu í innkaupastefnu Alcan?
Við öll innkaup er meginregla Alcan sú, að eiga viðskipti við trausta aðila sem bjóða vörur og þjónustu á samkeppnishæfu verði. Verðið eitt og sér skiptir þó ekki öllu máli og við viðurkennum rétt birgja til eðlilegs hagnaðar af sinni starfsemi.
Staðsetning fyrirtækjanna ræður því heldur ekki ein og sér hvort þau eru tekin fram yfir aðra, en reynslan hefur sýnt að mikil og náin samvinna hefur tekist með okkur og hafnfirskum fyrirtækjum og svo mun verða áfram. Í okkar huga er augljóst, að viðskipti við hafnfirska birgja myndu aukast með stækkun álversins, þó mismikið eftir eðli þeirrar þjónustu sem þeir veita okkur. Umsvif fyrirtækisins myndu aukast verulega, starfsmenn yrðu fleiri og þörfin fyrir þjónustu annarra aukast. Það er hins vegar ekki ábyrgt að slá fram nákvæmri tölu í þessu samhengi.