Sp. 15
Hvaðan kemur orkan í stækkað álver og hver er orkuþörfin?
Tvö orkufyrirtæki munu selja Alcan orku vegna stækkunar álversins. Landsvirkjun mun útvega 60% raforkunnar en Orkuveita Reykjavíkur 40%. Orkuveitan mun afla orkunnar með jarðvarmavirkjunum á Hellisheiði en Landsvirkjun mun reisa þrjár virkjanir í neðri-Þjórsá, við Hvamm, Holt og Urriðafoss.
Raunar hefur Landsvirkjun gefið út sérstakt fréttabréf þar sem sagt er frá framgangi verkefna sem tengjast virkjunum í Neðri-Þjórsá. Þar er m.a. greint frá mati á umhverfisáhrifum vegna virkjananna og gerð aðalskipulags viðkomandi sveitarfélaga.
Smellið hér til að sækja fréttabréfið á pdf-formi.
Annars er vert að nefna, að í umræðum um orkumál er hugtökunum afli og orku oft ruglað saman. Vissulega eru hugtökin tengd þar sem orka jafngildir afli sinnum tíma (orka = afl x tími.) Þegar um stóriðju er að ræða er algeng eining afls MW (megawött eða milljón wött) og orku GWh (gígawattstundir eða milljarðar wattstunda). Umsamið meðalafl til nýs hluta álversins í Straumsvík er 465 MW og umsamin árleg orkukaup 4074 GWh.
Núverandi orkusamningur er um 335 MW og 2932 GWh og rennur hann út árið 2014, en ekki 2024 eins og sumir hafa haldið fram í opinberri umræðu um málið.