Hvað er spennuris?
Við álframleiðslu hafa forskaut það hlutverk að flytja rafstraum ofan í raflausnina í kerinu (sjá nánari upplýsingar um framleiðsluferilinn). Æskilegt súrálsinnihald raflausnarinnar er um 2% en þá er viðloðun hennar við forskautin góð. Við slíkar aðstæður er rafleiðnin góð en annað verður upp á teningnum þegar súrálsinnihald í raflausninni er komið niður undir 1% en þá forðast raflausnin forskautin. Þunnt lag af gasi myndast undir forskautunum, eftir að hafa klofnað úr raflausninni, og straumrásin frá forskauti til bakskauts verður ekki jafn greið og áður.
Í stað raflausnar undir forskautunum hafa myndast gaspúðar og þar sem lofttegundir leiða mjög illa straum og því eykst viðnámið í kerinu. Þar af leiðandi þarf meiri kraft til að knýja strauminn gegnum kerið. Þessi kraftur er spennan, sem eykst úr 4,6 voltum í u.þ.b. 30 volt. Þetta óæskilega ferli er kallað spennuris og með jafnari kerrekstri hefur tekist að draga verulega úr fjölda spennurisa á undanförnum árum. Árangurinn er nú með því besta sem þekkist í álverum heimsins.
Okkar áherslur
- Okkur finnst mikilvægt að starfsemin sé í sátt við umhverfið og í anda sjálfbærrar þróunar.
- Við fylgjum í einu og öllu þeim lögum og reglum sem gilda.
- Við viljum vera fyrirmynd annarra á sviði umhverfismála.
- Við höfum vottað umhverfisstjórnunarkerfi skv. ISO 14001.
- Við leggjum áherslu á heiðarlega upplýsingagjöf.