Black Belt og Green Belt þjálfun
Álverið í Straumsvík hefur fyrst fyrirtækja á Íslandi skipulagt og hrint í framkvæmd markvissri þjálfun fyrir starfsmenn sína í Lean Six Sigma, aðferðafræði sem er að festast í sessi víða erlendis og á að tryggja stöðugar umbætur á verkferlum og aðferðum í hvers kyns fyrirtækjum. Starfsmenn sem ljúka Black Belt þjálfun í aðferðafræðinni munu framvegis sinna umbótaverkefnum í fullu starfi og starfsmenn sem hljóta Green Belt þjálfun munu framvegis vinna að umbótaverkefnum samhliða starfi sínu.
Black Belt þjálfunin hefur farið fram erlendis, en þjálfunarverkefnin eru unnin í Straumsvík og eru þegar farin að skila góðum árangri. Fyrstu einstaklingarnir fengu sína Green Belt þjálfun erlendis en seinna meir færðist þjálufnin hingað heim. Liturinn á þjálfuninni vísar til þess hve ítarlega fólk er þjálfað, þar sem svarta beltið er ítarlegasta þjálfun sem boðið er upp á.
Aðferðafræðin Lean Six Sigma er sett saman úr tveimur kenningarskólum sem margir stjórnendur þekkja; Lean Manufacturing annars vegar og Six Sigma hins vegar. Í Lean Manufacturing er áherslan á að útrýma sóun og óþarfa úr verkferlum fyrirtækja með það markmið að hámarka gæði, lágmarka kostnað og stytta ferla. Markmið Six Sigma er að stuðla að auknum gæðum og stöðugleika innan verkferla. Megináherslan er lögð á að skilja og stýra frálagi ferla og breytileika þess. Þá er átt við að með virkri skoðun ferla megi kortleggja mynstur þeirra og grípa inní í tæka tíð, áður en verkferlið getur af sér gallaða vöru eða slys. Með Six Sigma má svo hámarka framleiðslugetu fyrirtækja, minnka hringrásartíma í ferlum og koma á stöðugleika. Þegar þessar tvær leiðir eru sameinaðar undir heitinu Lean Six Sigma eiga fyrirtæki að geta brugðist hraðar við óskum viðskiptavinarins á hagkvæmari hátt og með meiri gæðum.
Í stuttu máli má því segja, að aðferðafræðin gangi út á að leysa verkefni með skilgreindum verkfærum eða aðferðum og stuðla að umbótum án mikilla fjárfestinga. Umbótaverkefnin eru unnin í hóp eftir skipulögðu úrlausnarferli og í hverju skrefi er ýmsum skilgreindum aðferðum beitt til úrlausnar, en aðferðirnar eru mismunandi eftir eðli verkefnisins. Hugmyndir að umbótum þurfa að grundvallast á gögnum, mælingum og greiningu á þeim, með það að lokamarkmiði að fækka göllum og frávikum. Verkefnin geta verið á öllum sviðum innan hvers fyrirtækis og geta meðal annars stuðlað að betri árangri í umhverfis-, heilbrigðis-og öryggismálum, aukinni framleiðslu eða leitt til lægri kostnaðar.
Ávinningur af fræðslustarfi
Ávinningurinn af símenntun og fræðslu er margvíslegur. Þessir eru helstu kostirnir:
- Öruggari vinnustaður
- Hæfara starfsfólk
- Jákvæðara starfsfólk
- Aukin verðmætasköpun
- Auðveldari innleiðing breytinga
- Sameiginlegur skilningur á viðfangsefnum
- Sterkari samkeppnisstaða fyrirtækisins
- Eftirsóknarverðari vinnustaður
- Aukin verðmætasköpun
- Aukin starfsánægja